Skip to main content

Nákuðungur farinn að dreifa sér meðfram ströndum Austfjarða

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. júl 2023 10:55Uppfært 21. júl 2023 11:05

Lengi vel var talið að sjórinn við strendur Austurlands væri of kaldur til að nákuðungar gætu þrifist þar með góðu móti. Líklega vegna hlýnunar sjávar er það að breytast hægt en örugglega.

Náttúrustofa Austurlands (NA) tók saman fyrr í þessum mánuði alla fundarstaði nákuðungs hér austanlands í kjölfar þess að tegundin fannst í lok júní í fjörunni utan við Skálanes í Seyðisfirði. Samkvæmt listanum hefur kuðungurinn atarna fundist á minnst sex mismunandi stöðum á síðustu árum þó enn komi fram á vef Hafrannsóknarstofnunar að hann finnist almennt ekki á Austurlandi vegna sjávarkuldans.

Nákuðungurinn er fæða fyrir ýmsa fjörufugla á borð við tjalda, tildrur og sendlinga en æður og máfar fúlsa heldur ekki við þeim. Hann lifir almennt í öllum fjörum hvort sem er brimsömum eða skjólsælum en liggur marga mánuði í dvala undir slútandi steinum að vetrarlagi. Kuðungurinn lifir helst á hrúðurkörlum og smákræklingum.

Að frátalinni fjörunni við Skálanes hefur kuðungur þessi fundist í Finnafirði, Bjarnarey, Teigarhorni og í Djúpavogi og við Stokksnes í Hornafirði. Meta fræðingar NA ástæðu þessa þá að sjórinn við Austurland, eins og víðast hvar í heiminum, er að hlýna nokkuð ört og þar einna mest á norðlægum slóðum.

Hluti nákuðunganna sem fundust við Skálanes í síðasta mánuði. Mynd NA/Halfdán H. Helgason