Nám Hallormsstaðaskóla verður háskólanám
Nám Hallormsstaðaskóla í skapandi sjálfbærni verður háskólanám frá haustinu 2025. Það verður fyrsta staðnámið á háskólastigi sem að fullu er kennt á Austurlandi. Þetta er gert með stuðningi Háskóla Íslands.Samningur um þetta var undirritaður fyrir helgi. Hann byggir á viljayfirlýsingu milli skólanna og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins frá í lok nóvember í fyrra. Með henni var ráðist í að kanna fýsileika þess að gera námið á Hallormsstað að háskólanámi. Nýverið skilaði sá starfshópur áfangaskýrslu.
Samkomulagið felur það í sér að hægt er að fá einingar frá Hallormsstað metnar inn í háskólanám. Menntavísindasvið mun hafa umsjón með vinnunni en hugmyndin er að hægt verði að fá 60 eininga námið eystra metið að fullu upp í kennararéttindi á sviði faggreina. Þá opnast möguleikar á að útskrifa nemendur með diplómu.
Skiptir máli fyrir nemendur, skólann og Austurland
Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla, segir að þessi breyting skipti í fyrstu nemendur skólans mestu máli. Til framtíðar vonast Bryndís til að hún efli fræðastarf á Austurlandi. „Við höfum fundið að námið okkar á fjórða hæfniþrepi á hvorki sterka stoð í kjarasamningum né hjá atvinnulífinu þar sem það veitir engin formleg starfsréttindi. Þess vegna skiptir þetta nemendur okkar máli.
Fyrir skólann þá ryður þetta ákveðna braut. Við vonumst að fleiri svið HÍ sýni Austurlandi áhuga því við viljum efla rannsóknir með að fá hingað doktorsnema og starfsfólk í rannsóknaleifum. Þetta er líka mikil viðurkenning fyrir námið sem við höfum þróað.
Þetta hefur líka þýðingu fyrir samfélagið okkar. Við viljum taka á móti háskólanemum. Nemendur með fjölskyldur eða jafnvel húsdýr hafa sýnt áhuga á að koma en við getum illa tekið á móti þeim á heimavistina. Þess vegna dreymir okkur um stúdentagarða
Þá hefur margt fólk unnið að því ötullega í áratugi að fá staðnám á háskólastigi á Austurlandi. Nú er það komið. Ég held að þetta sé besta leiðin, að fjölga ekki endilega háskólum heldur efla aðstöðuna,“ segir Bryndís.
Námið fullmótað á þessu ári
Til stendur að ráða verkefnisstjóra í sköpun og sjálfbærni við Menntavísindasvið HÍ. Sá á að fylgja eftir frekari þróun námsins í samstarfi við Bryndísi. Stofnuð verður sérstök fimm manna námsstjórn til að fylgja samningnum eftir og tryggja að námið uppfylli gæðaviðmið háskóla. Bryndís segir að hluti af vinnunni verði að fara yfir starfsmannamál Hallormsstaðaskóla og tryggja að þau uppfylli gæðastaðla háskóla.
Fyrir lok þessa árs þarf að vera búið að votta námið þannig að innritun geti hafist í fljótlega á næsta ári. Kennsla á Hallormsstað á háskólastigi hefst svo haustið 2025 en nemendur verða þá innritaðir í Háskóla Íslands og útskrifast þaðan.
Ýti undir rannsóknir og nýsköpun á Austurlandi
Bryndís vonast til að námið vindi síðan frekar upp á sig. „Fyrsta stóra skrefið er að fá námið, sem við höfum þróað, viðurkennt sem háskólanám, næst er að opna dyrnar til að taka á móti þeim sviðum og deildum sem hafa áhuga. Við höfum fundið fyrir áhuga frá til að mynda heilbrigðisvísindasviði og matvæla- og næringarsviði.
Við höfum fundið í samstarfsverkefnum, sem við höfum tekið þátt í, að það er kostur að fólk geti komið og dvalið á staðnum. Það skiptir máli þegar tekið er á móti vísindahópum. Við eigum okkur draum um að þetta hrindi af stað nýsköpun því það eru ýmis tækifæri í auðlindunum okkar á Austurlandi.“
Gott umhverfi til náms
Í fréttatilkynningu Háskóla Íslands segir að með samningnum opnist tækifæri fyrir nemendur skólans að sækja sérhæft og verklegt staðbundið nám á sviði sjálfbærni, hönnunar, umhverfis- og loftlagsbreytinga, matvælagerðar og fleiri greina.
„Hér er um að ræða fyrsta staðbundna háskólanámið á Austurlandi sem brýtur sannarlega blað. Hallormsstaðaskóli hefur sterkar rætur í austfirsku samfélagi og er saga skólans mjög merkileg. Ég fagna því þessum áfanga,“ er haft eftir Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, þar.
„Hér er um að ræða spennandi tækifæri fyrir ungt fólk til að taka eins árs þverfræðilegt grunnnám í stórkostlegu umhverfi Hallormstaðaskógar og læra til fræða og faglegs handverks. Við sjáum fyrir okkur að námið geti orðið hluti af frekara háskólanámi, svo sem aukafag í kennaranámi eða öðru námi við HÍ,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Kolbrún Pálsdóttir, Jón Atli Benediktsson og Bryndís Fiona Ford við undirritun samstarfssamningsins í Háskóla Íslands. Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson