Nánast ekkert í bílunum sem tjaran skemmir ekkert

Tjara eða bik sem slettist upp úr vegum sest á bíla og veldur margvíslegum skemmdum fyrir utan hættu sem það skapar fyrir umferðaröryggi. Atvinnubílstjóri segir varasamt hve skorið hafi verið við nögl í viðhaldi íslensks vegakerfis.

„Afleiðingarnar eru nánast óteljandi,“ segir Hlífar Þorsteinsson, sem keyrt hefur rútur undir merkjum Austfjarðaleiðar í bráðum 40 ár og fulltrúi í umferðaröryggisnefnd félags eigenda Harley Davidson mótorhjóla á Íslandi (HOG) um blæðingar í vegum hérlendis.

Ýmist er talað um tjöru- eða bikblæðingar en mikil umræða hefur orðið um þær eftir rútuslys í Öxnadal um miðjan júní. Í síðustu viku urðu einnig miklar blæðingar á veginum yfir Fagradal.

Hlífar hefur ekki farið Fagradalinn síðustu daga en segir hljóðið þungt í fólki í kringum hann. „Hljóðið er þungt í fólki, svo sem mótorhjólafólki og atvinnubílstjórum. Það er ákveðin uppgjöf og vonleysi gagnvart kerfinu. Ég veit um aðila sem hafa selt hjólin sín og ég tók mitt af skrá því ég sá ekki fram á að geta notað það.“

Yfirborð vega verður að vera stamt


Umræðan um klæðningar á íslenskum vegum er þó ekki ný. Þær tóku nýja stefnu eftir banaslys á Kjalarnesi sumarið 2020 þar sem par á mótorhjóli fórst. Þau voru félagar í HOG. Nýlögð klæðning þar var svo hál að stýra varð sjúkrabíl á leið á vettvang út af þannig hann lenti í ekki í árekstri þegar hann fór að renna. Síðar var staðfest að klæðning þar hefði ekki staðist kröfur.

Meðal þess sem gert var í kjölfarið var að skipa nefnd um öryggi vegfarenda á mótorhjólum. Hlífar situr í nefndinni fyrir hönd HOG. „Við höfum lagt höfuðáherslur á yfirborð vega, að það sé stamt og standist allar bremsumælingar. Við vitum að flugbrautir eru prófaðar áður en flugvélar lenda. Við hugum líka að hvernig möl, sandur og slíkt berst yfir gangstéttir. Þetta snýst um öryggi allra.“

Tjaran sest á allt


Blæðingar í malbiki verða einkum þegar hlýtt er í veðri, en líka á vetrum í miklum hitasveiflum eða þar sem mikil umferð er. Vegirnir hitna og við þær kringumstæður getur steinefnið í vegunum sokkið niður í bikið sem flýtur þá ofan á. Afleiðingarnar eru margvíslegar, allt frá hættu niður í óþægindi.

„Ökutæki geta flotið upp eins og verið sé að keyra á ís. Við sjáum líka dæmi þar sem klæðningin sjálf klessist á dekkin, jafnvel þannig að ekki er lengur hægt að keyra ökutækið. Við sjáum það á veturna.“

Það er eiginlega ekkert í bílnum sem sleppur við skemmdir. Þegar blæðingar voru hvað verstar á Hólmahálsi í kringum 2010 þurfti ég að senda rútu í viðhald hjá Öskju. Ég fékk bréf til baka þar sem ég var spurður í hvað bíllinn hefði verið notaður. Það var þykkt bik alls staðar í grindinni. Viðhaldið á bílnum þann vetur kostaði fjórar milljónir.

Bikið eyðileggur alls konar öryggisbúnað sem settur er í bíla til að koma í veg fyrir slys. Það klessist á pústskynjara og allar rafmagnsleiðslur og slítur þær úr sambandi. Það sest á skynjara fyrir ABS-kerfi, skynjara sem nema akreinar og radarskynjara sem nema fjarlægð milli bíla.

Mótorhjólin viljum við hafa fín en bikið bráðnar inn í járnið og næst þá ekki af. Þannig getur það eyðilagt flott króm,“ útskýrir Hlífar.

Þurfa að nota sterkt hvítspritt til að þrífa farartækin


Til að ná bikinu af bílunum þarf að nota tjöruhreinsi með sérstaklega sterku hvítspritti eða olíuterpentínu. „Það leysir upp kítti í rúðum, merkingar, eyðileggur gúmmíkanta, gerir lakkið matt og leysir upp plast í ljósum.“

Hvítsprittið er eitt af ásteytingarsteinunum því það var lengi notað sem íblöndunarefni við klæðningu á vegum. Það er dýrt og mjög mengandi, bæði fyrir náttúru og mannfólk því það getur valið skaða við innöndun. Auk þess var því kennt um miklar blæðingar. Þess vegna fór Vegagerðin upp úr 2010 að gera tilraunir með ýmsar gerðir lífolíu, svo sem repjuolíu, sem að minnsta kosti fyrst í stað þóttu gefa góða raun.

„Við höfum takmarkaðar upplýsingar um nákvæmlega hvaða efni eru notuð. Ólíkt terpentínunni þá virðist þetta efni ekki gufa upp og þá verður bikið mýkra. Það hefur verið þrætt fyrir að lýsi hafi verið notað en það var á tímabili og virðist lifa. Það er ekki langt síðan ég fékk klessu á rútu sem ég náði af með sterkum tjöruhreinsi en illa lyktandi lýsið sat eftir. Ég þurfti að fara með sterka sápu til að ná því af,“ segir Hlífar.

Hann bætir við að sé þetta hluti af vandamálinu þá sé aðeins um tilfærslu á óþægindum að ræða, það er úr vegunum og frá Vegagerðinni til hvers konar bíleigenda sem þurfi að nota sterkt hvítspritt eða verði fyrir skaða. „Hver er sparnaðurinn þá? Að lokum er þetta alltaf almenningur sem borgar.“

Hann trúir ekki að fullu á skýringar um að áhrif veðurfarsins og bendir á að hann hafi lent í því sama daginn að keyra vegi þar sem allar aðstæður hafi verið svipaðar þar sem blætt hafi úr einum öðrum veginum en ekki hinum. „Þetta gefur til kynna að það skipti máli hvaða efni eru notuð í klæðninguna og mér finnst þetta kalla á nánari skoðun. Ég þekki ekki nákvæmlega hvað fer í vegina en þetta ástand er óþolandi.“

Sparnaður í viðhaldi vegakerfisins dýrkeyptur siðar


Hlífar er hins vegar sammála því að þær klæðningar, sem svo víða eru notaðar í íslenska vegi, þoli ekki þá umferð sem á þeim sé og segir að alltof lengi hafi of litlu fé verið varið til viðhalds vega. Malbik er hins vegar fjórum sinnum dýrara.

„Miðað við þær tölur sem gefnar eru upp um álagsþol klæðningar og upplýsingar úr umferðarteljurum þá er ljóst að vegakerfið er komið yfir þolörk. Það þýðir að við þurfum að malbika því við höfum ekki leyfi til að leika okkur að lífi og limum fólks. Það kostar að flytja fólk á sjúkrahús og hlúa að því sem eftir er.“

Ég veit að margir starfsmenn Vegagerðarinnar eru miður sín yfir ástandinu og eru allan sólarhringinn að reyna að bjarga því sem hægt er. Vegagerðin reynir líka að finna lausnir en á endanum er það pólitíkin sem úthluta Vegagerðinni fé og það er af skornum skammti. Sérstaklega var það eftir hrun þegar fé til viðhalds var skorið niður. Það tekur langan tíma að vinna upp slíkan niðurskurð.“

En Hlífar er jafnvel efins um að umferðarþunginn sé fullnægjandi skýring. „Fyrstu blæðingar sem ég man eftir var á veginum við álverið á Reyðarfirði. Hann fór í vitleysu um leið og hann opnaði. Síðan fylgdi Hólmahálsinn á eftir. Vegurinn frá Norðfjarðargöngum í Fannardal var orðinn holóttur áður en umferð var hleypt á hann.“

Sinna verður eftirliti við framkvæmdir


Hlífar bendir þó á að ýmislegt hafi áunnist síðustu ár. Til að mynda geri Vegagerðin auknar kröfur á verktaka og prófanir á viðnámi í nýlagðri klæðningu. „En þótt Vegagerðin geri kröfur þá er ekki víst að allir verktakar fari eftir því. Verkstjóri og eftirlitsmaður við framkvæmdirnar þar sem slysið varð á Kjalarnesi voru lengi með réttarstöðu sakborninga en nýlega var tilkynnt að fallið hefði verið frá málshöfðun. Mér finnst það furðulegt því í öllum gögnum liggur fyrir að klæðningin var ekki í lagi. Ég er ekki að biðja um þunga dóma heldur að farið verði ofan í málið því það er ábyrgð að hleypa umferð á vegi.“

Til viðbótar við blæðingarnar á Austurlandi hefur verið gagnrýnt tilraunastarfsemi á Reykjanesbraut þar sem fyrir helgi voru lagðar út þrjár mismunandi gerðir malbiks. „Við í umferðaröryggishópnum vorum boðuð á fund vegna þess í dag. Við hefðum gjarnan viljað fá hann fyrr.

Ísland er bara lítið eyríki og við erum hér hvorki að vinna upp malbik eða vegagerð. Þess vegna á ég erfitt með að skilja þessar eilífu tilraunir. Við ættum að horfa til dæmis til Noregs þar sem aðstæður eru ekki ósvipaðar. Að því sögðu þá treysti ég að það sé búið að prófa þessar malbikstegundir annars staðar.“


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.