Nauðsynlegt að huga fyrr að ofanflóðahættu við gerð skipulags
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. okt 2023 12:36 • Uppfært 06. okt 2023 12:37
Sveitarfélög og fleiri aðilar þurfa að huga fyrr að hættu á ofanflóðum við gerð skipulags og undirbúning framkvæmda en gert er í dag. Áfram er unnið að samhæfingu viðbragðsaðila á Austurlandi til að bregðast við ofanflóðum.
Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum fundi sem haldinn var í Egilsbúð á mánudag í framhaldi af vinnustofu um ofanflóðamál. Yfir 80 manns frá ýmsum aðilum komu sóttu hana.
Áfram er unnið að því að styrkja viðbragðskerfið á Austurlandi sem mikið hefur reynt á síðustu þrjú ár eftir að hafa þurft lítið að gera mörg ár þar á undan. Ákveðið hefur verið að byggja upp aðgerðastjórn á Egilsstöðum fyrir fjórðunginn. Ástæðan er að í náttúruhamförum reiða Austfirðingar sig á utanaðkomandi aðstoð sem oftast kemur fyrst til Egilsstaða.
Bættar upplýsingar til íbúa
Eins þarf að styrkja aðgerðastjórn almannavarna með að þjálfa fleira fólk upp til þátttöku í henni ef á þarf að halda. Á öðrum stöðum þarf að fara yfir aðstöðu vettvangsstjórnar en húsnæði hennar hefur í nokkrum tilfellum endað á hættusvæðum. Áfram er unnið að rýmingarkortum og rýmingaáætlunum. Þær þurfa að vera bæði æfðar af viðbragðsaðilum og sýnilegar almenningi.
Á fundinum var meðal annars fjallað um Evrópuverkefnið The HuT sem miðar að því að auka þrautsegju almennings á hættusvæðum. Hérlendis hefur verið unnið með Seyðfirðingum sem lagt hafa til upplýsingar sem nýtast til að þróa vefsíðu sem verður fyrirmynd annarra. Þar verða helstu upplýsingar um náttúruvá, svo sem almennt um hættuna, um almannavarnir og viðbragð, hvernig íbúar þurfi að bregðast við, veðurspár og veðurupplýsingar í rauntíma ásamt fleiru.
Á fundinum var einnig bent á að núverandi íbúar á hættusvæðum verði að uppfærða fólk sem flyst þangað um þá hættu sem geti verið til staðar, þannig það vakni ekki upp við það í skyndingu að þurfa að rýma hús sín vegna ógnar sem það hefur aldrei heyrt af.
Bæta þarf skipulagið
Á Norðfirði og Seyðisfirði hefur undanfarna mánuði verið unnið að snjóflóðavörnum. Á Seyðisfirði hafa framkvæmdir í norðanverðum firðinum gengið vel á meðan nýir varnargarðar ofan Neskaupstaðar eru tilbúnir til útboðs. Vonast er til að framkvæmdir við þá hefjist á næsta ári.
Unnið er að hættumati í dreifbýli en söfnun upplýsinga í Skriðdal og Fljótsdal er langt komin. Rætt var um þörf þess að Veðurstofan kæmi fyrr að málum við gerð skipulags eða byggingaráformum hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, til dæmis með reglulegum fundum með byggingafulltrúum.
Alvarlegustu slysin í frítíma
Fleiri svæði þarf að skoða en íbúabyggð. Í snjóflóðahrinunni í lok mars lokuðust til dæmis fjölmargir vegir. Veðurstofan er byrjuð að gera staðbundnar snjóflóðaspár fyrir valda staði í íslenska vegakerfinu.
Þá er reyndin sú að flest alvarleg slys vegna ofanflóða verða á fólki á ferli í fjalllendi í frítíma sínum. Á slíkum svæðum getur verið hætta þannig að ekki sé forsvaranlegt að senda fólk til björgunar. Fram kom að æskilegt sé að fjölga snjóflóðaleitarhundum á Austfjörðum.
Snjóflóðahætta getur verið til staðar á skíðasvæðunum. Starfsfólk þeirra á að fara daglega í eftirlit en þjálfun þess þarf að efla. Þá þarf að tryggja að gestir skíðasvæða fari ekki út fyrir örugg svæði. Bæði þar og á vegunum getur verið lausn að sprengja niður hengjur áður en þær verða hættulegar. Slíkt hefur verið gert í áraraðir erlendis og var í fyrsta sinn gert í Hlíðafjalli við Akureyri síðasta vetur.
Annað SMS-próf í haust
Að endingu var farið yfir samskipti milli viðbragðsaðila og almennings. Til dæmis hvort rétt sé að halda sérsakar rýmingaræfingar. SMS-viðvörunarkerfi almannavarna var prófað í Neskaupstað í vor. Til stendur að gera það aftur nú í október. Þá eru uppi hugmyndir að lýsa yfir óvissustigi almannavarna við vægari aðstæður en áður. Þar með er allt viðbragðskerfið til staðar ef veðurspár raungerast.