Netagerðarmenn hafa vart undan í Neskaupstað
Netagerðarmenn hafa unnið fram á kvöld síðustu vikurnar en sjaldan hefur verið eins mikið að gera í þeim geiranum og að undanförnu.
Risavaxin loðnuvertíð setur pressu á fleiri en útgerðir og sjómenn eins og fram kemur í grein á vef Síldarvinnslunnar en þar er tekið hús á netagerðarfólki hjá Hampiðjunni.
Skemmst frá því að segja að þar á bæ hafa menn vart undan og hefur þurft að sækja fólk til vinnu frá hinum ýmsu stöðum eins og alla leið frá Vestmannaeyjum og þar af hafa ýmsir vanir starfsmenn Síldavinnslunnar reynt að létta undir eins og kostur er.
Hampiðjan hefði þurft að hafa mun fleiri starfsmenn í upphafi þessarar mklu loðnuvertíðarinnar að sögn Jóns Einars Marteinssonar, rekstrarstjóra Hampiðjunnar í Neskaupstað.
„Það er þessi risaloðnuvertíð sem skapar aukin verkefni. Það átti í reyndinni engin von á svona miklum loðnukvóta og strax og kvótinn var útgefinn skapaðist mikil pressa. Síðan hófust veiðarnar fyrr en ráð hafði verið fyrir gert og auðvitað þurfti að þjóna skipunum sem voru að veiðum. Síðan eru skipin nú byrjuð að skipta út flotvörpunni og taka grunnnót í staðinn og þá þurfa grunnnæturnar að vera klárar. Nú er unnið af miklu kappi í þeim. Við hefðum þurft að hafa mun fleiri starfsmenn hér en við höfum fengið frábæra aðstoð og þar á Síldarvinnslan drjúgan hlut að máli.“