Neyðarástand hjá Villiköttum á Austurlandi vegna fjölda katta
Alls eru sjálfboðaliðar samtakanna Villikettir á Austurlandi nú með 220 ketti í fóstri og hefur fjöldinn nánast aldrei verið meiri þann tíma sem þau hafa starfað. Framundan er kettlingatími í þokkabót og leita samtökin logandi ljósi að nýjum heimilum.
Sár skortur er á fleiri fósturheimilum til að hlutirnir geti gengið upp enda staðan svo að samtökin verða nú að forgangsraða þeim er hægt er að veita skjól, mat og öryggi að sögn Helgu Óskar Helgadóttur.
„Stundum gegnum vel að fá fólk til að taka að sér kettina en stundum illa og þetta er búið að vera rosalega erfitt ár í þessu í nokkuð langan tíma. Svo erum við farin að búa okkur undir enn meiri fjölgun því kettlingatímabilið er að hefjast og reynslan sýnir að þá getur fjölgað hratt á skömmum tíma. Þetta er orðin svo mikil vinna meðan fjöldi sjálfboðaliða hefur ekki aukist mikið svo að það gengur stundum erfiðlega að manna vaktirnar hjá okkur og öll hjálp og aðstoð vel þegin. Þess utan eru flestir sjálfboðaliðarnir með hús sín full af köttum og geta illa eða alls ekki bætt fleirum við. Svo eru auðvitað þessar reglur hjá Múlaþingi að óheimilt er að halda fleiri en tvær kisur á heimili og það er lítið að hjálpa þegar fjöldinn er svona mikill.“
Allmikill kostnaður fellur á samtökin vegna umsýslu vegna kattanna sem auk skjóls þurfa mat og lyf og stundum gott betur og segir Helga óskandi að Múlaþing fari að taka Fjarðabyggð til fyrirmyndar því síðarnefnda sveitarfélagið styður Villiketti með geldingar og slíkt en Múlaþing ekki. Það getur verið töluverður kostnaður vegna slíks í viðbót við annað.
Hafi einhverjir áhuga og vilja til að taka kött í fóstur eða aðstoða með öðrum hætti má finna allar upplýsingar á fésbókarvefnum Villikettir Austurlandi. Mynd: Aðsend