Neyðast til að loka fæðinga- og skurðþjónustu tímabundið í Neskaupstað
Loka verður fæðinga- og skurðþjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) í Neskaupstað tímabundið frá 10. þessa mánaðar og fram til 24. september.
Ástæða þessa sú að ekki tókst að finna svæfingalækni til afleysinga á þessu tímabili en forstjóri HSA, Guðjón Hauksson, segir að mikið hafi verið reynt til að koma í veg fyrir lokunina og leitað að fólki bæði innanlands og utan. Þetta er í fyrsta skiptið frá áramótum sem þetta gerist en loka þurfti minnst tvívegis á síðasta ári af sömu ástæðu.
„Þetta er auðvitað afar vont að þurfa að grípa til þessa ráðs en fólk á auðvitað rétt á sínum fríum og þó við reyndum mikið að fá einhvern í afleysingu á meðan þá tókst það því miður ekki. Leituðum við þó tiltölulega lengi að fólki, bæði hér heima og auglýstum meira að segja eftir fólki frá Evrópu en án árangurs hingað til.“
Guðjón segist ekki vita hversu margir verða fyrir óþægindum vegna lokunarinnar þessar tæpu tvær vikur en hann segir reyndar einu gilda hvort þar sé um einn einstakling að ræða eða tíu.
„Í raun skiptir fjöldinn ekki öllu máli. Það er einfaldlega óásættanlegt að svona staða komi upp en því miður þrátt fyrir margar tilraunir þá tókst ekki að leysa þetta að þessu sinni.“