Niceair opnar fyrir bókanir
Akureyrska flugfélagið Niceair sem hefur áætlunarflug til þriggja evrópskra áfangastaða frá Akureyri í júnímánuði hefur birt flugfargjöld sín opinberlega.
Áfangastaðirnir í þessari fyrstu atrennu flugfélagsins eru Tenerife á Kanaríeyjum, London á Englandi og okkar gamla höfuðborg Kaupmannahöfn í Danmörku.
Fargjöldin fyrstu vikur sumarsins eru á pari við það sem gerist hjá hefðbundnum flugfélögum sem fljúga til og frá landinu en hærri en almennt er raunin hjá lággjaldaflugfélögum. Þannig kostar farið aðra leið til Tenerife rúmar 39 þúsund krónur á manninn eða 78 þúsund krónur fram og aftur.
Til Stansted í London er komist fram og aftur með Niceair fyrir rúmar 44 þúsund krónur og báðar leiðir til Kaupmannahafnar kosta rétt tæplega 60 þúsund á mann.
Flogið er tvisvar til þrisvar í viku yfir sumartímann og fram í september en lengra fram í tímann en það er ekki hægt að bóka að svo stöddu.
Líkt og kom fram í viðtali Austurfréttar við framkvæmdastjórann Þorvald Lúðvík Sigurjónsson í febrúarmánuði gerir rekstrarmódel Niceair einungis ráð fyrir að helmingur sæta seljist í hverri ferð og samt náist að halda bókhaldinu í plús. Gengið er út frá þessu strax til að lágmarka áhættu fjárfesta sem að koma meðal þeirra eru mörg stærri fyrirtæki á Akureyri. Þar kom einnig fram að ekki sé útilokað að flogið verði frá Egilsstöðum í framtíðinni ef allt gengur að óskum.