Níu sóttu um starf forstöðumanns Lands og skógar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. júl 2023 10:46 • Uppfært 13. júl 2023 10:47
Níu manns sóttu um starfa forstöðumanns Lands og skógar, nýrrar stofnunar sem verður til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.
Lög um stofnunina voru samþykkt áður en Alþingi fór í sumarleyfi í byrjun júní. Starfið var síðan auglýst um miðjan júní. Umsóknarfresturinn rann síðan út á mánudag.
Í auglýsingu var óskað eftir framsýnum stjórnanda til að leiða stofnunina eftir sameiningu. Sá þyrfti að hafa ótvíræða leiðtogahæfni, þekkingu og reynslu auk þess sem kröfur voru gerðar um háskólamenntun sem nýtist í stari, reynslu af breytingastjórnun, færni til að móta liðsheild, reynslu í mannauðsmálum, þekkingu á opinberri stjórnsýslu og fleira í þeim dúr.
Matvælaráðherra skipar í starfið að undangengnu mati þriggja manna hæfisnefndar. Hana skipa Kristján Skarphéðinsson, fyrrum ráðuneytisstjóri, Björn Helgi Bjarkarson, skrifstofustjóri í matvælaráðuneytinu og Auður Bjarnadóttir, ráðgjafi hjá Vinnvinn.
Hjá Landi og skógi starfa um 130 starfsmenn í fjölbreyttum störfum. Verkefni stofnunarinnar eru um land allt og ekki er gert ráð fyrir að forstöðumaður hafi aðsetur á höfuðborgarsvæðinu.
Stofnunin tekur formlega til starfa um næstu áramót. Forstöðumanninn á að skipa í haust til að undirbúa starfsemi nýju stofnunarinnar. Skipunin er til fimm ára.
Höfuðstöðvar Skógræktarinnar hafa verið á Egilsstöðum síðan áramótin 1989/90 en Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Ekkert hefur enn verið ákveðið um hvar höfuðstöðvar nýrrar stofnunar verða. Hvorki Árni Bragason, nýverandi landgræðslustjóri né Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, eru meðal umsækjenda.
Gunnlaugur Guðjónsson, sviðsstjóri fjármála, er eini umsækjandinn sem í dag er með starfsstöð á Austurlandi. Fjórir aðrir stjórnendur frá Skógræktinni eru meðal umsækjenda en enginn frá Landgræðslunni.
Eftirtalin sóttu um starfið:
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri
Ágúst Sigurðsson, fagstjóri
Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðsstjóri
Gísli Tryggvason, lögmaður
Gunnlaugur Guðjónsson, sviðsstjóri
Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri
Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri
Páll Sigurðsson, skipulagsfulltrúi