Niðurskurður í heilbrigðismálum raskar atvinnuöryggi
Boðaður niðurskurður á ríkisframlögum til rekstrar Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) veikir öryggi almennings í fjórðungnum og dregur úr fýsileika svæðisins til búsetu og atvinnurekstrar.
Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn Fjarðabyggðar og stærstu fyrirtæki sveitarfélagsins, Loðnuvinnslan, Síldarvinnslan, Alcoa-Fjarðaál, Eskja, Launafl og VHE sendu frá sér í gær. Þar er fjórðungsniðurskurði til stofnunarinnar mótmælt. Í ályktuninni segir að 52% niðurskuður á sjúkrasvðið HSA muni hreinlega lama Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.
Uppskeran þykir rýr miðað við það hlutfall af útflutningstekjum þjóðarinnar sem verður til í Fjarðabyggð. „ Í Fjarðabyggð verður til fjórðungur gjaldeyristekna þjóðarinnar innan hinna sterku fyrirtækja í iðnaði og sjávarútvegi en taka verður tillit til þessarar miklu starfsemi og öryggis starfsmanna þeirra.“
Þjónustan skiptir máli þegar fyrirtæki ákveða hvar þau setja niður stafsemi sína. „Eitt af lykilatriðum í þeirri ákvörðun Alcoa að reisa álver sitt á Reyðarfirði var nálægð við sjúkrahúsið í Neskaupstað og öfluga heilsugæslu í fjórðungnum.
Verði af þessum aðgerðum ber að hafa í huga þær vegalengdir sem íbúar Austurlands munu þurfa að leggja á sig til að sækja sjúkrahúsþjónustu til Akureyrar og Reykjavíkur en þær munu veikja verulega öryggissjónarmið innan fjórðungsins að ótöldum þeim hundruðum sjómanna sem stunda veiðar út af Austurlandi.
Þá sé horft til náttúruhamfara sem, eins og dæmin sýna, hafa skollið á byggðarlögum. Má í því sambandi nefna snjóflóðin í Neskaupstað 1974.“
Niðurskurðaráformin geta haft alvarleg áhrif á atvinnulíf í fjórðungnum. „ Niðurskurðaráform stjórnvalda munun án nokkurs vafa leiða til aukins atvinnuleysis á Austurlandi, meðal annars í kvennastörfum sem skortur er á hér um slóður, og fýsileiki svæðisins til búsetu og atvinnurekstrar minnkar til muna.
Því skora áðurnefndir aðilar á heilbrigðisráðherra að endurskoða boðuð niðurskurðaráform. Alþingismenn Norðausturkjördæmis eru hvattir til að beita sér fyrir endurskoðun á fjárheimildum til HSA eins og þau liggja nú fyrir.“