Skip to main content

Niðurskurður HSA: Raunsparnaðurinn innan við sjötíu milljónir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. nóv 2010 15:10Uppfært 08. jan 2016 19:21

hsalogo.gifRaunsparnaður á niðurskurði til framlaga til Heilbrigðisstofnunar Austurlands verður aðeins tæpar sjötíu milljónir.  Hætt er við óafturkræfum og neikvæðum þjóðhagslegum áhrifum gangi hugmyndirnar eftir. Þetta kemur fram í skýrslu sem Capacent vann fyrir Fjarðabyggð. Hún var kynnt fyrir heilbrigðisráðherra í dag og verður kynnt á íbúafundi í Neskaupstað á morgun.

 

Í skýrslunni kemur fram að sparnaður ríkisins vegna 23% niðurskurðar til Heilbrigðisstofnunar Austurlands, HSA, sem á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að verða  466,8 milljónir króna, verður í raun 68,2 milljónir króna.  Megin ástæða þessa er að þjónusta sem annars hefði verið veitt hjá HSA færist til annarra heilbrigðisstofnana og kostnaður við flutning sjúklinga eykst.

Í skýrslunni er fjallað um neikvæð afleidd áhrif á íbúa, sveitarfélög og fyrirtæki. Afleidd áhrif af lækkun fjárveitinga til HSA eru til þess fallin að veikja þá grunngerð og þá innviði sem stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnulífið hafa byggt upp á Austurlandi á liðnum árum.  Þá kemur fram að með  lækkuninni sé verið að tefla í tvísýnu öryggi  einstaklinga sem vinna áhættusöm störf á Austurlandi.

Niðurskurður af þessari stærðargráðu hefur víðtæk og alvarleg áhrif á samfélagið, rekstur sveitarfélagsins og á þá fjölmörgu heilbrigðisstarfsmenn sem munu að óbreyttu flytja frá svæðinu með fjölskyldur sínar.  Afleidd áhrif fyrirhugaðs niðurskurðar eru skert búsetuskilyrði á Austurlandi og hætt er við óafturkræfum og neikvæðum þjóðhagslegum áhrifum.

Skýrslan er unnin að ósk bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð en eftirtalin fyrirtæki í Fjarðabyggð fjármögnuðu gerð hennar:  Alcoa Fjarðaál, Síldarvinnslan hf., Loðnuvinnslan hf., Eskja hf., Launafl ehf. og Vélaverkstæði Hjalta ehf.
 
Íbúafundur hefur verið boðaður í Egilsbúð í Neskaupstað klukkan 17:00 á morgun, föstudag, þar sem niðurstöður skýrslunnar verða kynntar fyrir íbúum Fjarðabyggðar.

Skýrsluna má lesa hér.