Njóta siglingarinnar og vilja vernda umhverfið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jún 2023 17:13 • Uppfært 20. jún 2023 17:14
Farþegar sem sigla með Norrænu segjast bæði gera það því þeir hafi gaman af að sigla en einnig því þeim sé annt um umhverfið og vilji því síður fljúga.
Þetta kemur fram í grein sem birtist nýverið í sænskum fjölmiðlum en útsendari TT fréttaveitunnar sigldi með Norrænu frá Íslandi og notaði tækifærið til að ræða við nokkra farþega.
Einn segist fyrst og fremst fara með ferjum til að hlífa umhverfinu en bætir við að hann hafi ekki gert hávísindalega útreikninga á losun kolefnis milli flugs og siglinga, fyrst og fremst þyki honum ferðamátinn skemmtilegur.
Hann hafi tíma til að ferðast þar sem hann sé hættur að vinna. Þessi ítalski ferðalangur er hrifinn af Norrænu og segir hana nútímalega, annað en sumar ferjurnar á Miðjarðarhafinu sem hann líkir við „gamlar rútur.“
Fleiri farþegar um borð nefna umhverfismálin og ánægjuna. Einn þeirra segir þá tvo og hálfu daga sem ferðin tók vera meðal hápunkta Íslandsferðarinnar.
Það er einmitt lengd ferðarinnar sem dró sænska blaðamanninn um borð. Leiðin frá Hirtshals í Danmörku til Seyðisfjarðar er ein lengsta ferjuleið í Evrópu. Siglingin tekur um 60 tíma aðra leið. Það er borið saman við ferjur svo sem frá suðvestur Spáni til Kanaríeyja, sem eru 35 tíma á leiðinni eða frá norðanverðum Spáni til suðurströnd Bretlands en þær siglingar eru 30 tíma langar.