Nokkrar skemmdir á fjallvegum eftir síðustu leysingar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. júl 2025 10:52 • Uppfært 01. júl 2025 10:53
Flestir fjallvegir á Austurlandi hafa nú verið opnaðir, utan leiðarinnar fyrir innan Snæfell og niður í Hrafnkelsdal. Nokkrar skemmdir urðu í leysingum undir lokin í vor og nokkrar leiðir eru enn frekar blautar.
Leiðin inn í Snæfellsskála var formlega opnuð í gær, þótt viðhaldi á henni hafi verið lokið fyrir helgi. Beðið var með opnun vegna rigninga sem gengu yfir um helgina en að sögn Ársæls Heiðbergs, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar í Fellabæ, er vegurinn frekar mjúkur vegna bleytu.
Enn er lokað frá Snæfelli og inn að Vatnajökli en Ársæll segir þekkt að sú leið sé opnuð um viku síðar. Þá er lokað frá Fljótsdalsheiði niður í Hrafnkelsdal. Sá vegur er í sundur á þremur stöðum og enn frekar blautur. Þess vegna er beðið með að opna hann.
Af einstökum leiðum er vegurinn frá Snænautaseli yfir í Kárahnjúka trúlega í bestu ástandi. Flestar aðrar leiðir eru aðeins merktar bílum með drif á öllum hjólum.
Eftir því sem Austurfrétt kemst næst urðu nokkrar skemmdir á vegum í síðustu leysingum. Ástandið mun vera einna verst inn í Kverkfjöll. „Mér skilst að leiðin sé frekar leiðinleg og það hafi runnið talsvert úr veginum,“ segir Ársæll. Hefill er á leið þangað og því ætti ástandið að lagast fljótt.
Á Þríhyrningsleið, sem tengir saman veginn inn í Kverkfjöll við Kárahnjúkaleið og Brúarveg, urðu skemmdir í rigningunum í júní.
Annars er þekkt að fjallvegir þurfa alltaf viðhald eftir veturinn. „Þeir fara gjarnan í sundur á sömu stöðunum. Þar sem eru hólkar er þeim stundum komið þannig fyrir að vegurinn fari frekar í sundur en að hólkarnir losni frá, því það er auðveldara að laga,“ útskýrir Ársæll.
Mynd: Vatnajökulsþjóðgarður