Nokkur áhugi á veitingasölu í þjónustumiðstöðinni við Hengifoss
Auglýsing Fljótsdalshrepps eftir aðilum áhugasömum um rekstur veitingasölu í nýrri þjónustumiðstöð sveitarfélagsins við Hengifoss hefur vakið viðbrögð nokkurra aðila en fyrirspurnarfrestur vegna þessa rennur út í dag.
Þó vígsla nýrrar þjónustumiðstöðvar Fljótsdalshrepps við Hengifoss hafi farið fram síðasta sumar hefur starfsemi innandyra síðan þá verið afar takmörkuð enda hreppurinn í samvinnu við forstöðumann hússins, Helgu Eyjólfsdóttur, unnið að stefnumótun um með hvaða hætti best sé að þjónusta gesti þar síðan þá.
Hluti af þeirri vinnu hefur snúið að því að opna húsið gestum og sinna upplýsingaþjónustu en ekki síður bjóða upp á veitingar fyrir þær tugþúsundir sem staðinn sækja hvert ár. Auglýst var eftir áhugasömum aðilum fyrir skömmu og segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri, ágæt viðbrögð hafa orðið hingað til.
„Það hafa nokkrir aðilar óskað eftir útboðsgögnum vegna þessa hingað til. Skilafrestur tilboða er til 15. apríl og gildistími þeirra gildir í fjórar vikur þaðan í frá. Þannig að heildarfjöldi áhugasamra mun ekki liggja fyrir fyrr en eftir helgina. En ég á von á að nokkur tilboð berist sem er hið besta mál enda hlýtur að vera hægt að reka veitingasölu með einhverjum hagnaði á stað sem 130 þúsund manns eru að heimsækja á ári.“
Hvenær gestir að Hengifossi mega eiga von á að geta keypt sér góðgæti á staðnum segir Helgi það vonandi verða fáeinum vikum eftir að útboðið verður um garð gengið.
„Við vonumst náttúrulega eftir að þegar húsið opni að fullu verði þar innandyra bæði lítil upplýsingamiðstöð og veitingasala til staðar. Þá um leið eykst úrval veitingastaða hér í Fljótsdalnum til muna sem er jákvæð þróun.“
Forstöðumaður þjónustumiðstöðvarinnar við Hengifoss við rými það sem skal nýtt undir veitingasölu frá og með næsta sumri. Mynd AE