Skip to main content

Nokkur umferðaróhöpp í skyndilegri vetrarfærð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. apr 2025 10:14Uppfært 14. apr 2025 10:15

Nokkur óhöpp hafa orðið í skyndilegri vetrarfærð sem skall á Austurlandi í gær. Töluverður snjór er enn á Fljótsdalshéraði meðan hann hefur tekið upp á Austfjörðum.


Tvö útköll hafa verið á Öxi, í gær og aftur snemma í morgun vegna erlendra ferðamanna sem höfðu fest sig þar.

Á Biskuphálsi varð árekstur um kvöldmatarleytið í gær í kófi. Þá lentu erlendir ferðamenn utan vegar við Möðrudal. Á Jökuldal barst lögreglu tilkynning um bílaleigubíl á öfugum vegarhelmingi en skyggni og færi var erfitt þar.

Tveir bílar skullu saman við sumarhúsabyggðina á Einarsstöðum um klukkan þrjú í gær. Annar bíllinn hafnaði utan vegar. Ökumaður og farþegi úr þeim bíl voru fluttir til aðhlynningar á heilsugæslustöðina á Egilsstöðum. Bílarnir voru talsvert skemmdir.

Krapi og snjóþekja er á flestum leiðum til og frá Egilsstöðum. Í þéttbýlinu er um 20 sentímetra þykkur, blautur snjór. Innan við Egilsstaði er þó almennt bara föl. Á Austfjörðum snjóaði einnig talsvert í gær en þann snjó hefur mikið til tekið upp, með hlýnandi veðri og rigningu.

Umskiptin í veðrinu um helgina voru mikil og snögg því á laugardag var hlýtt og sól. Á föstudag og laugardag voru enda 16 einstaklingar teknir fyrir of hraðan akstur.

Í Fellabæ í morgun.