Skip to main content

Norðfjarðará breytt eftir rigningarmet

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. sep 2023 11:28Uppfært 21. sep 2023 11:32

Norðfjarðará reif úr bökkum sínum og velti sér milli farvega þegar hún flæddi eftir metúrkomu á mánudag og þriðjudag. Skemmdir urðu á veginum inn í Fannardal.


„Þetta er eitthvert mesta umrót sem maður hefur séð. Heilu bakkarnir hafa horfið úr ánni. Hún hefur varpað sér milli farvega. Við sjáum ekki hvar hún rennur fyrr en hún hefur sjatnað.

Væntanlega sjáum við nýjar eyrar sem hafa myndast í henni. Þetta eru tugir þúsunda rúmmetra af efni sem hafa farið af stað.“

Þetta segir Guðröður Hákonarson sem á sumarbústað innst í Fannardal og þekkir vel til landslagsins þar. Norðfjarðaráin fellur innst ofan úr Fannardal og á leið hennar til sjávar innst í Norðfirði falla ýmsar þverár.

Ófært inn í Fannardal


Vegurinn inn í Fannardal er í sundur eftir lætin. „Á þriðjudagskvöld fór stór fylla úr Naumamelnum, sem er beint á móti gangamunna Norðfjarðarganga. Þar með fór vegurinn af.

Í gærmorgun fór ég inn í Fannardal til að athuga um bústaðinn minn. Þá sá ég að vegurinn er sundurgrafinn á löngum köflum. Í honum eru langsum skorningar, 30-50 sm. djúpir. Ég komst ekki yfir Fannardalsána, hún hefur grafið sig niður. Það þarf mikið efni til að laga vegina. Ræsin virðast hins vegar hafa sloppið. “

Í Fannardal er einnig vatnsból Norðfirðinga. „Aðalvatnsleiðsla bæjarins, rafmagnskaplar og ljósleiðari liggja yfir ána þar. Ef sama rigning hefði haldið haldið áfram í einhverja klukkutíma þá hefðu þessir hlutir mögulega farið af. Varnargarður fyrir vatnsveituna er að miklu leyti í sundur. Það þarf einhverja 1.000-2.000 rúmmetra af efni til að fylla að vatnsleiðslunni.“

Algjört illviðri


Samkvæmt tölum frá Veðurstofunni mældist úrkoman í Neskaupstað 254 mm. á 48 tíma, þarf 10-12 mm/klst. frá því um hádegi og fram undir miðnætti á þriðjudag. Áætlað er að slík úrkoma falli þar á um 100 ára fresti.

Við það óx Norðfjarðaráin verulega en fyrir helgi var hægt að vaða yfir hana í Fannardalnum nánast þurrum fótum. Á þriðjudag var einnig stórstraumsflóð sem hækkaði enn frekar vatnsyfirborðið. Guðröður segist ekki muna eftir slíku veðri á Norðfirði.

„Ég er orðinn sextugur og hef aldrei séð svona úrkomumagn. Í tvo sólarhringa kom endalaust sama magnið úr loftinu. Það var ekki þurr þráður á manni ef maður þurfti á milli húsa. Merkilegast fannst mér hvað veðrið var vont. Til viðbótar við úrkomuna var hvasst. Inni í Norðfjarðarsveit mældust hviður upp á 40 m/s. Þetta var algjört illviðri.“