Skip to main content

Norðmenn á síðasta séns

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. feb 2022 09:34Uppfært 21. feb 2022 10:42

Meira en 65.000 tonn eru eftir af loðnuveiðikvóta Norðmanna í íslenskri lögsögu. Norsku skipin hafa undanfarna daga keppst við þar sem síðasti dagur veiða þeirra er framundan.


Samkvæmt yfirlit Sildelage.no eru 65.409 tonn óveidd af kvóta norsku skipanna. Tölunni má þó taka með fyrirvara, þau skip sem geta eru á miðunum og nokkuð ljóst að þau geta verið búin að safna nokkrum afla um borð.

Norsku skipin mega alls veiða 145.000 tonn. Það sem ekki veiðist rennur inn í kvóta Íslendinga. Á föstudag tilkynnti Hafrannsóknastofnun hefði lækkað heildarkvótann um 34.500 tonn, þar af lækkar afli Íslendinga um rúm 22.000 tonn. Miðað við þessar forsendur gæti norski afgangurinn meira en bætt upp skerðinguna.

Samkvæmt frétt Sildelaget eru nú 27 norsk skip eftir á veiðum við Ísland. Alls hafa 60 skip leyfi til loðnuveiða en aðeins 30 mega vera úti í einu. Röð þeirra til veiða veltur á sérstöku kerfi. Vegna þessa og veðurs hefur fjöldi norskra skipa verið við bryggjur á Austfjörðum síðustu vikur. Þau tíndust í burtu í síðustu viku.

Norðmenn hafa verið afar óhressir á vertíðinni með þröngar reglur um veiðar þeirra. Samkvæmt þeim mega skip þeirra ekki veiðar sunnar en við Hvalbak. Þess vegna er norski flotinn í hnapp um 58 sjómílur út af Álftafirði að kroppa í það sem þar er meðan íslensku skipin eru á veiðum fyrir vestan land.

Annað sem ergt hefur Norðmenn er að veiðar þeirra eru ekki heimilaðar lengur en út 22. febrúar, sem er á morgun. Veðurspáin í dag er góð en afleit á morgun sem eykur enn pressuna. Fram kemur hjá Sildelaget að vindar og hafstraumar hafi ollið nokkrum skaða á veiðarfærum á vertíðinni. Til að reyna að ná sem mestu af kvótanum ákvað norska Fiskistofan að afnema allar reglur um hámarksafla skipa í gær.

Samkvæmt yfirliti Loðnufrétta hafa íslensku skipin veitt um 360.000 af þeim 662 þúsund tonna kvóta sem þeim var upphaflega úthlutaður, eða tæp 55%. Áætlað verðmæti afurðanna eru tæpar 200 milljónir dollar sem slaga í 25 milljarða króna.

Norsku skipin í hnapp úti af sunnanverðum Austfjörðum. Skjáskot af Marinetraffic.