Norðmenn æfir yfir þröngum skilyrðum fyrir loðnuveiðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. feb 2022 18:29 • Uppfært 16. feb 2022 18:33
Útgerðarmenn norskra loðnuveiðibáta eru vægast sagt óhressir með þröng skilyrði sem skipum þeirra eru sett fyrir loðnuveiðum í íslenskri lögsögu og krefjast aðgerða gegn þorskveiðum Íslendinga í Barentshafi. Útlit er fyrir að norsku skipin verði langt frá því að veiða allan sinn kvóta.
„Það sem ég hef heyrt frá mínu fólki er ekki prenthæft. Það er pirringur og reiði yfir því sem er að gerast,“ er haft eftir Audum Maråk, framkvæmdastjóra Fiskebåt – hagsmunasamtaka norskra útgerðarmanna í Fiskeribladet.
Veiðar norsku skipanna hafa gengið illa. Í byrjun vikunnar höfðu þau veitt um fjórðung af sínum kvóta, 38.400 af 145.400 tonnum. Í síðustu viku veiddu þau aðeins 1.500 tonn. Miklir hagsmunir eru í húfi, verðmæti óveidda kvótans nemur milljörðum króna.
Norski mælirinn fullur
Ýmsar hindranir eru í vegi norsku skipanna. Í fyrsta lagi mega þau aðeins nota nót og í öðru lagi mega að hámarki 30 skip vera að veiðum í einu, en Norðmenn eiga 60 skip til veiðanna. Í þriðja lagi eru þeir komnir í mikið kapphlaup við tímann þar sem þeir mega ekki veiða nema til 22. febrúar. Íslendingar geta á móti veitt til 1. apríl og hafa fengið að veiða með botnvörpu síðan í byrjun desember.
Norski sjávarútvegsráðherrann talaði í síðustu viku um mismunun og að hann hefði rætt þetta við íslenska ráðherrann en án árangurs. Maråk samsinnir sínum ráðherra og gott betur. „Mælirinn er orðinn fullur hjá norskum sjómönnum. Við getum ekki sætt okkur við þessa mismunun. Íslensk, færeysk og grænlensk skip geta veitt sinn kvóta án nokkurra takmarkana meðan Noregur og norskir sjómenn fá ósanngjarna meðferð. Útkoman er að norski kvótinn næst ekki sem leiðir til umtalsverðs taps fyrir norska sjómenn.“
Hann segir að svara verði Íslendingum í sömu mynt með sambærilegum skilyrðum fyrir þorskveiðum þeirra í Barentshafi, en löndin skiptast á þessum tveimur veiðiréttindum. Miður sé að þessi staða sé komin upp því hún skapi neikvætt andrúmsloft í kringum samningaviðræður landanna í framtíðinni.
Ekki rétt að rífast á miðri vertíð
Íslendingar virðast ekki til viðræðna, að minnsta kosti ekki í bili. Blaðið hefur eftir upplýsingafulltrúa íslenska sjávarútvegsráðuneytisins að í síðustu samningalotu hafi norska samninganefndin engar athugasemdir gert við fyrirkomulag loðnuveiðanna. Fulltrúar landanna taki stöðuna árlega, síðast í september. Afstaða Íslands sé að rétt sé að taka stöðuna í næstu lotu, ekki á miðri vertíð.
Maråk fullyrðir hins vegar að norska samninganefndin hafi viljað ræða loðnuna, meðal annars botnvörpuveiðarnar, en fengið þau svör að Íslendingar vildu herða reglurnar. Hann telur Íslendinga vilja þrengja að Norðmönnum þar sem þeir sjái að mest af erlenda kvótanum fari þangað, en Norðmenn hafi auk tvíhliðasamninganna um loðnu og þorsk við Íslendinga fengið loðnukvóta í íslenskri lögsögu í samningum við Evrópusambandið og Bretland.