Norrænu seinkar vegna óveðurs
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. ágú 2023 09:58 • Uppfært 08. ágú 2023 13:03
Norræna kemur ekki til Seyðisfjarðar á sínum vanalega tíma á fimmtudagsmorgun vegna óveðurs sem geisar á Norðurlöndunum.
Samkvæmt venjulegri áætlun hefði Norræna átt að vera að fara frá Hirtshals nú í morgun. Ferjan hefur hins vegar látið fyrirberast út af Lillesand í Noregi vegna austan storms og rigningar sem valdið hefur miklum usla á Norðurlöndunum.
Samkvæmt staðarmiðlinum Nordjyske hefur fjölda reglubundinna ferjusiglinga frá Hirthals verið aflýst í dag vegna veðursins.
Ráðgert er að Norræna fari frá Hirtshals annað kvöld klukkan 20:00 í stað þess að fara þaðan 11:30 eins og vanalega. Það þýðir að skipið kemur ekki til Þórshafnar í Færeyjum fyrr en klukkan þrjú aðfaranótt föstudags.
Samkvæmt upplýsingum frá Smyril-Line á Íslandi er ekki enn ljóst hvenær ferjan kemur til Íslands. Beðið er þess að veðrið lagist í Danmörku en viðvaranir eru í gildi fram þar til annað kvöld.
Mynd: SigAð