Skip to main content

Norskir loðnusjómenn fjölmenna í Vök

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. feb 2022 17:46Uppfært 16. feb 2022 17:48

Norsk loðnuveiðiskip hafa legið dögum saman við austfirskar bryggjur vegna brælu. Sjómennirnir af þeim hafa stytt sér stundir við ferðir um Austurland, meðal annars í Vök Baths.


„Jú, það er rétt. Febrúar hefur verið góður tekjulega og það má þakka þeim það,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths, aðspurð um komur norsku sjómannanna.

Skipin hafa legið bundin við bryggju á fjörðunum dögum saman en sjómennirnir hafa leitað sér dægrastyttingar og virðist baðstaðurinn njóta sérstakar hylli meðal þeirra.

Þegar þeir létu úr höfn bjuggu þeir sig samt frekar undir vikur á sjó en afslöppun í heitum laugum. „Þetta hefur haft óvæntar afleiðingar. Við erum með sundskýlur til leigu og höfum þurft að þvo þær oftar en reglulega því ákveðnar stærðir klárast úr hillunum þegar þeir koma margir í einu,“ segir Aðalheiður.

Heldur hefur ræst úr hjá norsku skipunum þessa vikuna og þau farið til veiða. Það hefur gengið vel og bíða þau svo að segja í röðum eftir að geta landað og drifið sig út aftur. Unnið er í kapp við tímann en frestur Norðmanna til að veiða loðnu í íslenskri lögsögu rennur út 22. febrúar.

Norsk loðnuveiðiskip við bryggjuna á Fáskrúðsfirði í síðustu viku.