Notendum Loftbrúar fækkaði í fyrsta skipti á síðasta ári
Þeim íbúum landsbyggðarinnar sem nýttu sér afsláttarkerfið Loftbrú í innanlandsflugi fækkaði í fyrra í fyrsta skipti frá því að umrætt afsláttarkerfi var kynnt til sögunnar árið 2020.
Þetta má sjá á tölfræðivef Vegagerðarinnar sem heldur, fyrir hönd ríkisins, utan um Loftbrúna og hvaðan meðfylgjandi tafla er fengin. Engin er skipting milli flugvalla svo ekki liggur fyrir hve stór hluti farþega Austurlands nýta sér kjörin umfram aðra.
Loftbrúin er, fyrir þá sem ekki þekkja til, sérstök afsláttarkjör á flugi innanlands sem einungis bjóðast þeim íbúum á landsbyggðinni sem fjærst búa frá höfuðborginni. Hugmyndin frá upphafi verið sú að með góðum afsláttarkjörum til þess fólks megi bæta aðgengi íbúa að ýmis konar miðlægri þjónustu en jafnframt efla byggðirnar með því að gera innanlandsflugið að hagkvæmum valkosti. Íbúum fjarri Reykjavík gefst kostur á 40% afsláttarkjörum á flugi allt að sex sinnum ár hvert.
Eftir að metfjöldi landsbyggðarfólks nýtti sér þessi betri kjör árið 2023 þegar rétt tæplega 82 þúsund einstaklingar flugu á afsláttarkjörum fækkaði þeim ferðum um rúmlega þrjú þúsund talsins í fyrra. Þá ráku tæplega 79 þúsund manns erindi suður í höfuðborginni og bókuðu flug sitt með Loftbrú.
Orsakir þessarar fækkunar notenda liggja ekki fyrir enda skortir á því formlegar rannsóknir en rök hafa verið færð fyrir að hluti ástæðunnar geti verið að flugfargjöld innanlands hafa tekið mikið stökk upp á við síðan Loftbrúin var kynnt til sögunnar.
Mælingar Hagstofu Íslands benda til að fargjöld hafi hækkað á þeim tíma um 36% eða nokkuð umfram almenna vísitölu neysluverðs yfir sama tímabil. Það í ofanálag við tæplega 70% hækkun þessara sömu gjalda frá árinu 2002 til 2018 samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs Íslands á sínum tíma.