Skip to main content

Notið góðvildar fjölda fólks á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. mar 2022 14:22Uppfært 18. mar 2022 14:25

„Við höfum sannarlega notið góðvildar fjölda fólks hér á Egilsstöðum og okkur vanhagar ekki um neitt,“ segir Alona Perepelytsia, en móðir hennar og systir ásamt þremur börnum hennar voru fyrstu úkraínsku flóttamennirnir sem komu til Egilsstaða þegar stríð braust út í heimalandinu.

Alona sem sjálf hefur lengi búið á Egilsstöðum ásamt eiginmanni sínum Bóasi Eðvaldssyni og tveimur börnum þeirra segist himinlifandi yfir ýmis konar aðstoð sem fjölskyldan hefur fengið þær tæpu þrjár vikur sem liðnar eru síðan móðir hennar, Svitlana, og systir, Oleksandra, komu austur með litlum fyrirvara og lítið meðferðis eftir fimm daga flótta. Sérstaklega var þörf á fatnaði og leikföngum fyrstu dagana og brugðust margir fljótt við því.

Öll fjölskylda Bóasar lagðist á eitt um að tryggja góðar móttökur strax á flugvellinum í Keflavík og svo aftur á flugvellinum á Egilsstöðum og þegar mæðgurnar lentu hér austanlands var búið að búa eins vel í haginn fyrir flóttafólkið eins og framast var unnt með skömmum fyrirvara. Systirin og börnin fengu inni hjá Alonu og Bóasi en móðirin fékk inni hjá foreldrum Bóasar og dvelur þar í góðu yfirlæti.

Alona og systir hennar reyna nú að tryggja sér sal til leigu eða láns í næsta mánuði en þeim langar til að setja upp danssýningu til styrktar flóttafólki frá Úkraínu en Alona er sjálf menntaður danskennari og starfar sem slík.