Nýtt hjúkrunarheimili: Þörfin er mikil og brýn

hjukrunarheimili_egs_skoflustunga_0013_web.jpg
Framkvæmdir eru hafnar við nýtt hjúkrunarheimili neðan við heilsugæslustöðina á Egilsstöðum. Formaður byggingarnefndar segir mikla þörf hafa verið fyrir húsið. Það skapi vistmönnum og starfsfólki allt annað umhverfi en er til staðar í dag.

„Við, sem höfum fylgst með aðstandendum okkar við núverandi aðstæður, vitum öll að þörfin er bæði mikil og brýn. Ég vil ekki síður beina því til starfsfólks HSA að starfsumhverfið verður allt annað en það er í dag,“ sagði Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs og byggingarnefndarinnar, þegar fyrsta skóflustungan var tekin fyrir skemmstu.

Fjörutíu rúm verða á nýja hjúkrunarheimilinu, þarf af verða tíu þeirra í fyrstu leigð til Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Verkið kostar 1,15 milljarð og segir Gunnar að það með stærri framkvæmdum sem ráðist hefur verið í í sveitarfélaginu.

„Þessi bygging er atvinnuskapandi, ekki bara á framkvæmdatíma heldur einnig þegar henni er lokið því það þarf talsvert af starfsfólki í hana.“

Ylur sér um jarðvegsvinnuna en á næstu dögum verður byggingin sjálf boðin út. Niðurstöður útboðsins ættu að liggja fyrir eftir um mánuð og í kjölfarið verður byrjað að byggja. Gert er ráð fyrir að hjúkrunarheimilið verði tilbúið á næsta ári.

Gunnar tók fyrstu skóflustunguna ásamt Einari Rafni Haraldssyni, framkvæmdastjóra HSA og Sævari Sigurbjarnarsyni frá félagi eldri borgara á Héraði. „Það má ekki gleyma að við neytendurnir, sem ég er hér mættur fyrir, höldum áfram að vera fólk þótt við séum hálffarlama,“ sagði Sævar.

Í hádeginu á morgun verður haldinn kynningarfundur um uppbyggingu hjúkrunarheimilisins. Á fundinum gera forsvarsmenn sveitarfélagsins grein fyrir helstu þáttum framkvæmdarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.