Ný æfingaaðstaða bylting fyrir Slökkvilið Fjarðabyggðar – Myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. okt 2023 12:24 • Uppfært 12. okt 2023 12:32
Slökkvilið Fjarðabyggðar tók í sumar í notkun nýja æfingaaðstöðu við hlið slökkviliðsstöðvarinnar á Hrauni. Þar hefur verið gámum verið raðað saman þannig að líkja megi eftir aðstæðum í íbúðarhúsi.
Átta gámar mynda húsið, fimm neðri hæðina og þrír þá efri. Innan þessa rýmis er margt sem líkir eftir aðstæðum í íbúðarhúsi. Þar er húsgögn, svo sem borð, stólar, sófar og aðstæður sem líkja eftir stofu og svefnherbergjum.
Stiginn er brattur og þröngur og þrep niður í stofuna. Renna má til veggjum þannig að herbergjaskipan breytist milli æfinga. Þrjár reykvélar eru á svæðinu þannig hægt er að fylla húsið af reyk á stuttum tíma. Jafnvel má finna þröngan gang sem minnir á aðstæður í eldri skipum.
„Við erum með herbergi þannig að hægt er að æfa sem fjölbreyttasta björgun. Þótt þetta sé stílað inn á reykköfun þá er lítið mál að æfa annað, svo sem sjúkraflutninga, auk þess sem við getum boðið öðrum liðum að nýta aðstöðuna.
Mörg hús á okkar svæði eru gömul með þrönga stiga. Menn þurfa alltaf að hugsa um eigið öryggi í reykköfun, þótt þeir sjái ekki neitt. Þessar aðstæður minna á það,“ segir Júlíus Albertsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri.
Gámarnir eru reyndar níu. Sá síðasti stendur upp á rönd þannig að hægt sé að æfa björgun úr hæð.
Æfingaaðstaðan var tekin í notkun í sumar. Júlíus segir það mikinn kost að hafa hana við hlið slökkvistöðvarinnar. „Það er bylting að fá aðstöðuna svona nálægt því nú getum við æft á vaktinni. Ef það kemur útkall þá er hægt að sleppa búnaðinum því þetta er æfingabúnaður. Það er meira sem þarf að hugsa fyrir, til dæmis varðandi útköll, ef æft er annars staðar.“
Slökkviliðið reyndi líka nýja æfingaaðferð sem verið er að innleiða hjá Brunamálaskólanum nýverið. Þar fékk slökkviliðsfólkið handrit viku fyrir æfinguna og vissi því hversu mörgum einstaklingum þyrfti að bjarga af hvorri hæð. Eins var vitað að bjarga þyrfti reykkafara sem meiddist við störf.
Með þessu er vonast til að byggja megi upp liðsanda og æfa í rólegheitum viðbrögð áður en taka þarf snöggar ákvarðanir við óvæntar aðstæður.
En á sama tíma og slökkviliðsfólkið var undirbúið voru ekki allir það, til dæmis voru leikarar settir í hlutverk sitt á staðnum og sendir inn í reykinn til að bíða björgunar. Austurfrétt fylgdist með.