Ný fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar gagnrýnd harðlega af minnihlutanum
Mikil og hörð gagnrýni kom fram hjá minnihluta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar við síðari umræðu um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins til næsta árs sem og þriggja ára áætlun til 2027 en þær áætlanir voru báðar samþykkt af meirihlutanum á þeim fundi.
Meirihluti Fjarðalistans og Framsóknar samþykkti framlagðar fjárhagsáætlanir fyrir skömmu en í þeim er tillit tekið til erfiðra aðstæða á íslenskum vinnumarkaði með tilliti til lausra kjarasamninga á almennum markaði í vetur en ekki síður mikillar verðbólgu allt þetta ár með tilheyrandi háu vaxtastigi. Það er mikið til af þeim sökum sem ýmsar gjaldskrárhækkanir á nýju ári voru samþykktar og jafnframt dregið úr fjárfestingum á allra næstu árum.
Nýkjörinn forseti bæjarstjórnar úr Framsóknarflokki, Jón Björn Hákonarson, sagði af þessu tilefni að látið væri sem hækkanir og aðhald í rekstri væri sérvandamál Fjarðabyggðar og umræðan snérist of mikið um hversu lítið ljós væri í öllu myrkrinu. Það væri mikill misskilningur enda öll sveitarfélög landsins glímt við erfiðleika allar götur meira og minna frá Covid-árunum og Fjarðabyggð þar ekki undanskilin. Undir það tók Stefán Þór Eysteinsson, frá Fjarðalistanum, sem sagðist skilja ýmsa þá gagnrýni sem frá minnihlutanum hefði komið en fjárlög næstu ára tækju sérstaklega mið af því að auka allt svigrúm til athafna og framkvæmda á raunsæjan hátt.
Minnihluti Sjálfstæðismanna bókaði gegn áætlununum með þeim rökum að ekki aðeins gerði útgönguspá þessa árs fyrir A-hluta sveitarfélagsins ráð fyrir 79 milljóna króna halla heldur gerðu áætlanir næstu ára ráð fyrir að dregið yrði saman í framkvæmdum og viðhaldi í sveitarfélaginu. Uppsöfnuð viðhaldsþörf á eignum Fjarðabyggðar væri að lágmarki tveir milljarðar króna í dag og því fullkomlega óraunhæft að draga næsta fjögur árin úr áætlunum til úrbóta. Jafnvel þær ráðagerðir dugi ekki til því ljóst sé að tekjur A-hlutans dugi ekki til og taka þurfi frekari lántöku frá B-hluta sveitarfélagsins til að ná þeim endum saman.
Fjárhagsáætlun sem gengur ekki upp
Kristinn Þór Jónasson úr Sjálfstæðisflokki var sérstaklega harðorður í máli sínu á fundinum og var ekkert að skafa af þeirri skoðun sinni að fjárhagsáætlanir meirihlutans gengju ekki upp í neinu tilliti.
„Með fullri virðingu fyrir þeirri vinnu sem lagt hefur verið í og fyrir margra hluta sakir verið með ágætum þá er ótal spurningum ósvarað. Fyrir liggur viðhaldsþörf í sundlaug Fáskrúðsfjarðar upp á tugi milljóna og sömu sögu er að segja af sundlaug Reyðarfjarðar. Grunnskólabyggingar þarfnast framkvæmda og viðhalds, Fjarðabyggðarhöllin er augljóslega ekki á þriggja ára áætlun, spurningum varðandi Stríðsárasafnið er ekki svarað og viðbúið er að kostnaður vegna grunnskólans á Eskifirði fari fram úr áætlun og langt á eftir áætlun. Til að vera varfærin, vitandi að kostnaður er meiri en það sem áætlað var við byggingarnar á þessu ári væri skynsamlegast að áætla kostnað á árinu 2024 miðað við það svo áætlanir geti staðist. Ég er skeptískur á að þessar áætlanir nái fram að ganga.“
Annar fulltrúi sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn, Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, gagnrýndi líka harðlega að sérstakur starfshópur sem skipaður var til að greina í þaula framtíðaruppbyggingu og viðhaldsþörf eigna sveitarfélagsins til lengri tíma hefði enn ekki skilað af sér neinum tillögum. Því væri ekki hægt að taka mið af þeirri vinnu næstu árin.
„Ég vill árétta að það var 3. október 2022 sem ákveðið var að mynda starfshópinn um framtíðaruppbyggingu og viðhald mannvirkja í Fjarðabyggð. Í desember sama ár kallaði ég eftir því hvers vegna vinnan við að stofna hópinn væri ekki hafin. Fyrsti fundurinn var svo haldinn í maí 2023. Við erum enn að bíða niðurstaðna frá hópnum þó framtíð íþróttamannvirkja brenni hér á íbúum öllum. Það vilja allir halda í sitt og fá sín mannvirki að minnsta kosti viðhaldið eða jafnvel endurnýjuð. Ég tel að við gerð fjárhagsáætlunar hefði verið kjörið tækifæri að vera komin með niðurstöður frá þessum hóp til að hægt verði að taka ákvarðanir til framtíðar og starfsfólk skólastofnanna og íþróttafélög sveitarfélagsins gætu farið að vinna út frá því.“
Sala fasteigna nauðsynleg
Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans, sagðist skilja gagnrýni minnihlutans en benti á að gjaldskrárhækkanir Fjarðabyggðar frá og með næsta ári væru minni en í flestum öðrum sveitarfélögum landsins. Aðalmálið nú væri að standa eins góðan vörð um þjónustuna og hægt væri við núverandi aðstæður og hugsanlegt væri að reyna að selja ýmsar fasteignir Fjarðarbyggðar til að létta á skuldastöðunni.
„Það er auðvitað uppsöfnuð viðhaldsþörf hér hjá okkur í Fjarðabyggð og við erum mjög meðvituð um hana. Það er auðvitað okkar verkefni að skapa þá fjármuni í kerfinu hjá okkur sem við þurfum til að viðhalda okkar fasteignum og standa undir nýjum fjárfestingum. Það sést að hluta til inn í þessari fjárhagsáætlunargerð núna að við ætlum að skapa aukið svigrúm. Hvernig getur við fækkað fasteignum sem dæmi og er nauðsynlegt að gera augljóslega. Ég er sammála því að það er gríðarlega mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf og við að leita leiða til að sinna henni. Varðandi agann og stefnufestuna þá er það alveg rétt. Það er eitthvað sem við einsetjum við okkur auðvitað í okkar hlutverkum í bæjarstjórn og það er okkar verkefni og við þurfum að standa undir því.“
Stefán Þór benti líka á að þrátt fyrir töluverðar gjaldskrárhækkanir væru þær undir meðallagi í landinu.
„Svona ef maður lítur yfir landið þá myndi ég segja að við séum svona undir meðallagi í gjaldskrárhækkunum og það verið okkar stefna að vera ekkert að hækka þær neitt of mikið. Þær eru svona sæmilega hóflegar að ég myndi halda. Það sem við erum að gera með þessari fjárhagsáætlun sem liggur fyrir núna er að við erum að reyna að standa vörð um þessa þjónustu sem við veitum íbúum sveitarfélagsins og við erum að hlúa að barnafjölskyldum og að sama skapi að reyna að efla rekstur sveitarfélagsins en þetta eru forsendur þess að það verði áfram gott að búa hérna. Við erum, að ég tel, með þessari áætlun að leggja fram raunhæfa áætlun. Við erum til dæmis að auka áætlun veikindalauna okkar. Við erum að taka frá töluverða upphæð vegna óvissu í kjarasamningum, við aukum áætlunina fyrir snjómoksturinn sem er eitthvað sem hefur ekki verið gert síðustu ár þannig að þetta er raunsærri áætlun og við erum að auka stofnframlög til húsnæðisfélaganna. Heilt yfir held ég að þessi áætlun sé raunsærri en áður en við erum samt sem áður að halda áfram þessari uppbyggingu eins og með leikskólann á Eskifirði og með önnur verkefni í hafnarsjóði á Fáskrúðsfirði og Eskifirði. Þannig að við erum áfram að fjárfesta og setja peninga í þessa hluti.“
Hækkanir nú ná ekki að fylgja verðlagi
Gjaldskrárhækkanir á íbúa og fyrirtæki í Fjarðabyggð eru allnokkrar um áramótin í ofanálag við hámarksálag á útsvar. Eitt það sem hefur mjög verið á milli tanna fólks er 35% hækkun á ýmsum gjöldum vegna sorphirðu í sveitarfélaginu.
Jón Björn Hákonarson ítrekaði að þó hækkanirnar væru vissulega töluverðar að þessu sinni yrði að taka tillit til að Fjarðabyggð og mörg önnur sveitarfélög landsins hefði gengið mjög skammt í slíkum hækkunum undanfarin ár. Það væri líka raunin nú.
„Mér finnst stundum eins og umræðan sé að þetta sé sérvandamál Fjarðabyggðar. Þetta sé allt sérstaklega erfitt hér og hér sé lítið ljós framundan sem er algjör misskilingur. Það eru, eins og komið hefur fram í bókun, slæmar efnahagslegar aðstæður á Íslandi. Það vandamál er ekki bundið við Fjarðabyggð. Efnahagslegar aðstæður hafa verið krefjandi allt þetta ár og raunar allt frá Covid. Eitt af því sem er gagnrýnt eru gjaldskrárhækkanir. Ég skil vel þá gagnrýni en við verðum að horfa til þess að sveitarfélögin hafa um langt skeið stigið mjög stutt skref í þeim efnum. Gjaldskrár, sem eiga að endurspegla þann kostnað sem liggur að baki, hafa ekki fylgt neinu verðlagi og gera það ekki heldur núna þó menn hafi stigið þessi skref. Það er ljóst að við þurfum að horfa til þess, og ég tel að Fjarðabyggð hafi stigið mjög hófsöm skref, að hækkanir þær sem við ræddum á síðasta bæjarstjórnarfundi og tengjast helst sorpmálum og nýrri lagasetningu, að eðli þeirrar gjaldskrár var að breytast. Ég held það sé samhljómur um það, líka meðal sjálfstæðismanna, að það séu skref sem við verðum að stíga núna en vonandi getum stigið til baka með þær í framtíðinni.“
Verkefni næsta árs
Þó hart sé í ári fjárhagslega hjá Fjarðabyggð og fjölmörgum öðrum sveitarfélögum stendur til að fara í nokkur fjárfrek verkefni. Þar er á áætlun áframhaldandi vinna við viðbyggingu leikskólans á Eskifirði. Klæða skal og skipta um glugga á efstu hæð grunnskólans á Reyðarfirði, áfram haldið með viðhald á göngu- og hjólastígum í öllum bæjarkjörnum og sömuleiðis skal uppbygging leiksvæða halda áfram. Stór kostnaðarliður felst líka í kaupum á nýjum slökkvibíl í sveitarfélagið.
Samkvæmt útgönguspá ársins nema heildarskuldir og skuldbindingar Fjarðabyggðar alls rúmlega 11,4 milljörðum króna í árslok. Áætlun næsta árs gerir ráð fyrir að þær skuldir lækki um 70 milljónum króna. A-hluti rekstursins á að skila 109 milljóna króna afgangi í lok árs 2024 og B-hlutinn endar í 442 milljóna króna plús. Heildartekjur sveitarfélagins á næsta ári áætlaðar 8,6 milljarðar króna eða um fimm hundruð milljónum króna meiri tekjur en á yfirstandandi ári.
Meirihluti sveitarstjórnar Fjarðabyggðar samþykkti fjárhagsáætlanir næsta árs og til ársins 2027 á fundi sínum fyrir stuttu. Á myndina vantar Jón Björn Hákonarson sem fyrir skömmu snéri aftur í pólitíkina og er nýkjörinn forseti bæjarstjórnar. Mynd Fjarðabyggð