Skip to main content

Ný stjórnstöð aðgerðastjórnar Almannavarna Austurlands formlega vígð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. jan 2024 14:06Uppfært 05. jan 2024 14:39

Stór stund rann upp í morgun þegar vígð var formlega ný og stórbætt stjórnstöð aðgerðarstjórnar Almannavarna á Austurlandi en sú er staðsett á efstu hæð húsnæðis björgunarsveitarinnar Héraðs á Egilsstöðum. Þaðan verður öllum stærri aðgerðum allra helstu viðbragðsaðila austanlands stýrt eftirleiðis.

Nýja miðstöðin gerir störf viðbragðsaðila á borð við lögreglu, björgunarsveita, slökkvi- og sjúkraliðs markvissari og skjótari þegar og ef til alvarlegra slysa, náttúruhamfara eða annarra alvarlegra atburða kemur. Þar mun aðgerðarstjórn hafa beinan aðgang að öllum helstu upplýsingum eins skjótt og þær berast sem auðveldar til muna að samhæfa aðgerðir allra sem að þurfa að koma. Það gerist fyrst og fremst rafrænt en aðgerðarstjórn hefur nú, ólíkt því sem áður var raunin, meðal annars skjótan aðgang að miklum og nákvæmum kortagrunnum Loftmynda ehf. auk allra upplýsinga Veðurstofu Íslands um varhugaverða staði í eða við þéttbýli hvað varðar snjóflóð eða skriður. Að sama skapi getur aðgerðarstjórn nú fyrirvaralaust séð beint streymi frá myndavélum lögreglu, drónum eða annarra aðila sem geta streymt beint frá hverjum stað fyrir. Þannig má umsvifalaust átta sig mun betur á staðháttum eða veðri eða öðru því sem getur haft áhrif á viðbragð eða viðbragðsaðila.

Formaður almannavarnarnefndar Austurlands, Margrét María Sigurðardóttir, lögreglustjóri, opnaði miðstöðina og sagði engan vafa leika á að hér væri stigið stórt og mikilvægt skref til að tryggja öryggi í fjórðungnum. Nú geti aðgerðarstjórn gengið snöggt og örugglega að öllum fyrirliggjandi upplýsingum á hverjum tíma með tölvum og öðrum búnaði og öll viðbrögð verði því betri og skjótari fyrir vikið.

„Hér er um mikilvægt skref að ræða til að bæta aðgerðarstjórn á Austurlandi. Eins og allir vita hefur mikið gengið á hjá Almannavörnum á Austurlandi síðustu árin. Margir stórir og alvarlegir atburðir átt sér stað eins og skriður á Seyðisfirði, snjóflóð í Neskaupstað auk þess sem ofsaveður hafa riðið yfir og valdið miklu tjóni. Reynslan hefur bara sýnt hversu brýnt það er að hafa aðstöðu eins og hér er nú komin upp og nú erum við að verða eins vel í stakk búin til að takast á við óvænta atburði og framast verður kosið.“

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, hefur haft hvað mestan veg og vanda af því að gera nýju miðstöðina að veruleika en ástæða þess að hún er staðsett á Egilsstöðum megi að stórum hluta rekja til þess að þegar stórir atburðir kalla á mannskap eða tæki þá komi það að mestu leyti beint með flugi á Egilsstaðaflugvöll.

„Þetta auðveldar allt starf allra sem að koma og er mikil og góð breyting. Nú þegar er óformlega kominn vísir að því að smærri viðbragðsstöðvum í öllum bæjarkjörnum sem yrði þá stýrt héðan. Það gefur betri yfirsýn að hafa allar mögulegar upplýsingar við hendina sem er nokkuð sem viðbragðsaðilar á hverjum stað fyrir sig hafa kannski ekki svo auðveldlega aðgang að. Ekki hvað síst ef atburðir eru að gerast á mörgum stöðum á svipuðum tíma eins og hefur sannarlega átt sér stað hér fyrir austan.“