Ný tæki hjá Matís í Neskaupstað flýta greiningu

Tvö ný tæki í starfsstöð Matís ohf. í Neskaupstað eiga að flýta fyrir greiningum sem austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki þurfa á hráefni og afurðum sínum. Vilji er til að efla starfsstöðina áfram og er horft til stækkunar húsnæðis.

Tækin tvö voru tekin í notkun í byrjun mars. Annars vegar er um að ræða HPLC tæki, hins vegar PCR tæki. Austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki hafa kallað eftir að tæknin sé til staðar á svæðinu í þó nokkurn tíma. Til þessa hefur þurft að senda sýni frá þeim suður til Reykjavíkur til greiningar. Þess vegna flýta nýju tækin verulega fyrir.

HPLC-tækið mælir rótamín sem oft eru kölluð lífræn amín. Magn þeirra í mjöli segir til um gæði þess en getur einnig gefið vísbendingar um ástand hráefnisins þegar það kom til vinnslu.

Hitt tækið kallast PCR og greinir örverur á borð við salmonellu og listeríu. Stefán Þór Eysteinsson, stöðvarstjóri Matís í Neskaupstað, segir tilkomu þess vera byltingu fyrir fiskimjölsvinnslu á Austfjörðum því það flýti verulega fyrir greiningum.

„Vanalega tekur fjóra daga að greina salmonelluna, en það verður einn dagur með nýja tækinu. Í listeríunni hefur þetta tekið sex daga, en við förum núna niður í tvo daga og gætum farið niður í einn dag með sérhæfðara æti,“ segir Stefán.

Hjá Matís í Neskaupstað starfa nú sjö starfsmenn. Stefán segir bæði starfsmannafjöldann og ekki síður aðstöðuna í samvinnuhúsinu Múlanum, sem flutt var inn í snemma árs 2021, hafa gert það að verkum að hægt sé að bæta við þeim mælingum sem sjávarútvegurinn hefur kallað eftir.

En þótt starfsstöðin hafi aðeins verið opnuð fyrir um þremur árum er þegar farið að þrengja að. Múlinn er líka orðinn fullbókaður og þess vegna er verið að skoða 200 fermetra viðbyggingu. Matís hefur komið að þeim viðræðum og lýst áhuga á að stækka rými sitt.

Stefán Þór við HPLC-tækið.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.