Skip to main content

Nýir eigendur að gistihúsum við Végarð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. okt 2023 08:16Uppfært 20. okt 2023 08:21

Nýstofnað félag, Fljótsdalsgrund, hefur keypt gistihús við félagsheimilið Végarð í Fljótsdal af sveitarfélaginu. Nýir eigendur segja markmiðið að byggja upp atvinnu og þjónustu í dalnum.


„Það sem vakir fyrir okkur er að finna okkur lífsviðurværi í dalnum. Við sáum þarna tækifæri á að búa okkur til atvinnu.

Við vildum líka halda eignarhaldinu og rekstrinum í sveitinni frekar en inni í samsteypu sem stýrt er annars staðar frá,“ segir Kjartan Benediktsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Fljótsdalsgrundar. Sambýliskona hans, Sólrún Júlía Hjartardóttir, verður framkvæmdastjóri. Börn þeirra og tengdabörn eiga síðan 6% í hinu nýstofnaða félagi.

Um er að ræða gistiheimili með tíu herbergjum með baði auk minna húss með fjórum svefnherbergjum. Húsin eru byggð upp á núverandi stað árið 2009 en eru í grunninn einingar úr vinnubúðum sem notaðar voru við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Fljótsdalsstöðvar. Fljótsdalshreppur keypti hluta þeirra þannig úr varð gistiheimili við hlið Végarðs. Húsin hafa til þessa verið leigð en í fyrra ákvað sveitarstjórn að auglýsa þær til sölu.

Helgi Gíslason, sveitarstjóri, segir ánægjulegt að samningar hafi náðst. Hreppurinn hafi á sínum keypt húsin til að koma af stað ferðaþjónustu í sveitinni. Eigendaskiptin nú séu til marks um að atvinnugreinin sé farin að slíta barnsskónum í dalnum.

Nýir eigendur taka við húsunum um áramót. Reksturinn undanfarin ár hefur verið undir merkjum Hengifoss Guesthouse en nýir eigendur ætla að nota nafnið Fljótsdalsgrund. Kjartan segir að þess utan verði ekki miklar breytingar í fyrstu.

„Það eru ekki aðstæður í stórar breytingar. Fyrsta markmiðið er að borga niður fjárfestinguna. Það eru ýmsar hugmyndir í farvatninu. Við erum ekki að horfa á stækkun en vonumst til að geta bætt við þjónustuna eftir 2-3 ár.“

Kjartan Benediktsson, stjórnarformaður Fljótsdalsgrundar og Helgi Gíslason, sveitarstjóri, handsala samninginn.