Nýir eigendur að Hótel Eyvindará
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. mar 2025 18:19 • Uppfært 01. apr 2025 10:35
Laufás Hótel ehf. hafa keypt Hótel Eyvindará, skammt utan við Egilsstaði, að Staka hjalla ehf. Nýir eigendur eiga sterka tengingu við hótelreksturinn þar.
Það voru Erla Jóhannsdóttir og Bogi Ragnarsson frá Djúpavogi sem um síðustu aldamót hófu gistirekstur á Eyvindará um síðustu aldamót. Þau voru með lítið gistiheimili með fjórum herbergjum og þremur litlum sumarhúsum.
Synir þeirra, þeir Ragnar Jóhann og Ómar Bogasynir kaupa hótelið nú ásamt konum sínum, þeim Svövu Skúladóttur og Margréti Urði Snorradóttur. Ómar segist eiga góðar minningar frá fyrstu árum rekstursins þar sem faðir þeirra hafi spilað á harmonikku meðan móðir þeirra hafi bakað pönnukökur fyrir gesti.
Vaxið mikið á tæpum 20 árum
Það var svo í mars 2007 sem Ófeigur Pálsson og Sigurbjörg Inga Flosadóttir tóku við rekstrinum. Þau hafa bætt töluvert við reksturinn, gistiheimilið er orðið að 34 herbergja hóteli. Sextán herbergi eru í aðalbyggingunni, tíu í gistiálmu við hótelið og átta í litlum sumarhúsum inn á milli trjánna. Á hótelinu er fullbúið eldhús, bar og morgunverðar- og veitingasalur fyrir um 50 manns í sæti, ásamt þvottahúsi.
„Við tökum við fallegu og vel uppbyggðu hóteli á einstökum stað og munum vanda okkur vel varðandi frekari uppbyggingu upp á að gróskumikið umhverfið með háum trjám og fallegu útsýni fái að njóta sín. Hótel Eyvindará á áfram að vera vin í skóginum þar sem gestir geta komið og notið gistingar, góðra veitinga, kyrrðarinnar og náttúrfegurðar umhverfisins” segir Ómar í tilkynningu.
Fyrstu gestirnir
Laufás Hótel tóku við rekstrinum þann 1. mars síðastliðinn og voru fyrstu gestirnir frá Nashville í Bandaríkjunum, þau Robin og Calum Avison. Þeim þótti mikið til koma að vera fyrstu gestirnir hjá nýjum eigendum.
„Robin og Calum munu alltaf skipa ákveðinn sess hjá okkur á Hótel Eyvindará, þau dásamlegu hjón. Þegar þau kvöddu þá gáfu þau nýjum eigendum 20 dollara happaseðil sem á að vera staðsettur á barnum. Ekki nóg með það nú fyrir stuttu birtist síðan bréf frá þeim sent frá Nashville það sem þau þakka fyrir góðar móttökur og stefna á að koma sem fyrst aftur til Íslands. Þetta verður að teljast gott veganesti og við munum taka vel á móti þeim á ný eins og reyndar öllum öðrum,“ segir Ómar.
Nýr hótelstjóri
Hann segir að vel hafi gengið að ráða starfsfólk. Nýr hótelstjóri er tekinn til starfa, Gunnar Þjóðólfsson ásamt góðu starfsfólki úr nærsamfélaginu meðal frá Seyðisfirði og Egilsstöðum. Gunnar segist spenntur og bjartsýnn á framhaldið á Hótel Eyvindará.
„Við tökum við flottu vel búnu hóteli og stefnum á að byggja upp spennandi áningarstað með upplifun og slökun gesta í fyrirrúmi. Við erum meðal annars með tvo heita potta og erum að skoða að tvinna ýmislegt spennandi við þá
Á Austurlandi eru margar fallegar náttúrperlur og meðal annars þess vegna er það virkilega gaman að fá tækifæri til að taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru. Bæði varðandi rekstur og uppbyggingu Hótels Eyvindarár og móttöku gesta sem sækja okkur og Austurland heim,“ segir Gunnar að lokum.

Margrét og Ómar með fyrstu gestunum, Robin og Calum. Myndir: Aðsendar