Nýir eigendur taka við Valaskjálf og Hótel Hallormsstað
Einkahlutafélagið 701 Fasteignir keypt Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum og Hótel Hallormsstað af Þránni Lárussyni. Nýir eigendur hafa hug á að stækka Valaskjálf á næstu árum. Nýr hótelstjóri er tekinn til starfa.Fjárfestingafélagið Thule Properties fer með ráðandi hlut í 701 Fasteignum en það samanstendur af hópi fjárfesta sem þeir Jóhann Pétur Reyndal og Gísli Steinar Gíslason fara fyrir. Þráinn verður meðeigandi í gegnum eigið félag.
„Eftir 15 ára uppbyggingu hef ég ákveðið að söðla um og draga mig út úr daglegum rekstri. Þó ég standi ekki vaktina mun ég halda á hlut í félaginu og bera hag þess eftir sem áður fyrir brjósti. Ég vænti mikils af nýjum aðaleigendum og hlakka til samstarfsins,“ er haft eftir Þránni í tilkynningu sem hópurinn sendi frá sér í dag.
Vilja auka umferð utan háannatíma
Í Valaskjálf eru 39 herbergi í rekstri auk þess sem byggingaréttur á lóðinni er hluti viðskiptanna. Því fylgir einnig félagsheimili. „Eitt af okkar fyrstu verkum verður að ráðast í nokkrar endurbætur á Valaskjálf og seinna meir Hallormsstað. Við höfum hug á því að stækka Hótel Valaskjálf um allt að 60 herbergi í náinni framtíð. Við förum af stað með sterka fjármagnsskipan og erum spenntir fyrir vegferðinni,“ segir Gísli Steinar.
Þráinn hefur byggt upp hótelrekstur á Hallormsstað undanfarin ár. Þar eru 92 herbergi sem gerir það að stærsta hóteli Austurlands. „Við tökum við góðu búi af þeim Þránni og Heiðrúnu Ágústdóttur. Okkar áherslur verða aukin nýting á þeim fastafjármunum sem til staðar eru í dag: félagsheimilinu Valaskjálf, ráðstefnusalnum Þingmúla og ráðstefnuaðstöðunni á Hallormsstað.
701 Hotels ráða yfir 131 hótelherbergjum og til mikils er að vinna að reyna skapa aukna umferð utan háannatíma,“ segir Jóhann Pétur.
Davíð Kjartansson nýr hótelstjóri
Davíð Kjartansson hefur verið ráðinn nýr hótelstjóri og er þegar tekinn til starfa. Hann lauk B.Sc. prófi í hótelstjórnum frá César Ritz University í Sviss, M.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði við Háskóla Íslands og er að ljúka MBA gráðu frá UHI Skotlandi. Hann starfaði áður sem hótelstjóri á ION Luxury, Miðgarði by Centerhotels, Hotel Southcoast og við hóteluppbyggingu hjá Arctic Adventures. Þá er Davíð er alþjóðlegur meistari í skák og margfaldur Íslands- og Norðurlandameistari.
„Ég mæti til leiks fullur tilhlökkunar. Austurlandið hefur alltaf átt sérstakan stað hjá mér. Ég bjó fyrstu árin á Djúpavogi og svo er unnustan mín fædd á Egilsstöðum og á hér mörg skyldmenni.
Starfið er virkilega spennandi og við sjáum urmul af tækifærum. Við þurfum að fá ferðamanninn til stoppa lengur og skoða sig um því hér eru margar náttúru- og menningarperlur. Þá þurfum við að markaðssetja Egilsstaði betur sem áhugaverðan kost fyrir viðburða- og ráðstefnuhald og næla okkur í stærri hlut af vetrarumferðinni.“
Sigurður R. Ragnarsson mun eftir sem áður sinna fjármálastjórn hótelanna.
Gísla Steinar Gíslason, nýr eigandi, Davíð Kjartansson nýráðinn hótelstjóri, Jóhann Pétur Reyndal, nýr eigandi, Þráinn Lárusson fyrrum aðaleigandi og Heiðrún Ágústsdóttir fráfarandi hótelstjóri. Mynd: Aðsend