Nýir rekstraraðilar taka við veitingastaðnum Salti

Kári Þorsteinsson og Sólveig Edda Bjarnadóttir hafa tekið við rekstri veitingastaðarins Salts á Egilsstöðum og opna hann á ný um miðjan mánuðinn. Þau segjast munu setja mark sitt á staðinn en áfram verði þar eitthvað fyrir alla í boði.

„Við breytum aðeins í salnum til að setja okkar brag á þetta. Sama á við um matinn, við gerum hann aðeins að okkar,“ segja þau.

Kári og Sólveig hafa frá árinu 2019 rekið veitingastaðinn Nielsen á Egilsstöðum. Þar hefur áherslan verið á íslenskt hráefni. „Við ætlum ekki að setja hvannarfroðu eða hreindýramosa á pizzurnar á Salti. Við ætlum frekar að vera með hefðbundnari hráefnum þar og halda áherslunni á íslenska hráefnið meira á Nielsen,“ útskýrir Kári.

Staðurinn hefur gengið vel á sumrin en átt erfiðara uppdráttar yfir vetrartímann þegar minna er um ferðafólk á svæðinu. Kári og Sólveig fóru því að horfa eftir leiðum til að bæta úr á þeim árstíma.

Á sama tíma eru í gangi miklar breytingar á 701 samsteypunni sem rekið hefur Salt, Diner-inn, Valaskjálf og Hótel Hallormsstað en síðasti opnunardagur Diner-sins var í gær. „Við grínuðumst með að taka að okkur Diner-inn því móðursystir mín hóf veitingarekstur í Shell-skálanum á sínum tíma.

Síðan var Kári að tala við eiganda 701 um eitthvað allt annað þar sem Diner-inn barst í tal og hann spurði okkur hvort við vildum ekki frekar taka að okkur Salt,“ segir Sólveig Edda.

Opna um miðjan nóvember


Kári og Sólveig taka húsnæði og tæki Salts, sem opnaði í maí 2013, á leigu. Staðnum var lokað vegna breytinganna í lok október. Þau fá lyklana afhenta í dag og þau stefna að því að opna á ný um miðjan nóvember. Þau ætla sér að reka Nielsen áfram yfir sumarið með stökum viðburðum yfir vetrarmánuðina.

„Nielsen hefur aðallega verið opinn í hádeginu á veturna. Við vonumst til að það fólk sem var hjá okkur þar mæti á Salt því við tökum vinsæla rétti, eins og ferskan fisk frá Borgarfirði eystra, með okkur auk þess sem ókláruð klippikort á Nielsen verður hægt að klára á Salti. Á Salti verður eitthvað fyrir alla, pizzur, hamborgarar og fleiri fjölbreyttir réttir, þótt við minnkum aðeins umfangið á matseðlinum,“ segir Kári.

Kári mun elda á Salti í vetur en færa sig yfir á Nielsen á sumrin þótt hann verði alltaf með annan fótinn á Salti. Sólveig hefur þjónað á Nielsen en gerir ráð fyrir að sinna mest daglegum rekstri og utanumhaldi eftir að Salt bætist við.

Mikilvæg stoð á Egilsstöðum


Salt hefur frá upphafi verið til húsa að Miðvangi 2-4, eða Kleinunni, sem er einn af hornsteinum miðbæjarins á Egilsstöðum. Sólveig og Kári segja mikilvægt fyrir bæjarbraginn að halda áfram veitingastarfsemi á svæðinu.

„Staðurinn er á besta stað í bænum og hér stoppa allir. Þótt Nielsen sé ekki langt í burtu þá finnum við að fólk þarf að gera sér ferð þangað. Salt er mikilvægur staður fyrir Egilsstaði því þar er hægt að ganga að góðum mat og þjónustu fyrir alla hópa nánast hvenær sem er dagsins. Síðan myndast mikið líf hér í kring á sumrin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.