Nýir yfirmenn í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal
Nokkrar breytingar hafa orðið á rekstri Óbyggðasetursins nú í sumar. Bæði nýr rekstrarstjóri og framkvæmdastjóri áfangastaða Arctic Adventures, sem á setrið að stórum hluta, hafa tekið til starfa.
Óbyggðasetrið í Fljótsdal hefur sannarlega komist á kort ferðalanga um Austurland síðustu árin en einn forsvarsmaður setursins frá upphafi, Steingrímur Karlsson, hætti störfum fyrir nokkru síðan. Það var um svipað leyti sem ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures keypti sig inn í reksturinn enda mikil tækifæri þar talin til staðar.
Það er Davíð Arnar Runólfsson, sem var nýverið ráðinn framkvæmdastjóri áfangastaða Arctic Adventures en auk Óbyggðasetursins hefur hann umsjón með ferðum í Fjarðarárgljúfrið, Kersins í Grímsnesi og Raufarhólshellis. Davíð var um skeið framkvæmdastjóri Raufarhafnarhellis og hefur mikla reynslu úr ferðaþjónustu sem leiðsögumaður, landvörður og rekstrarstjóri ferðaþjónustu um níu ára skeið.
Nýi rekstrarstjórinn er Gyða Borg Barðardóttir sem hóf störf í Óbyggðasetrinu síðasta sumar en er lærður viðskiptafræðingur með gráðu að auki í verkefnastjórnun og hefur full réttindi sem landvörður í þokkabót.
Gyða Borg á góðri stundu á hálendi Íslands en hennar hlutverk er nú að auka veg og vægi Óbyggðasetursins meðal ferðalanga á Austurlandi. Mynd Aðsend.