Skip to main content

Nýjar lóðir brátt auglýstar á Borgarfirði eystra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jún 2023 10:44Uppfært 21. jún 2023 11:32

Framboð lóða á Borgarfirði eystra hefur verið afar takmarkað um langa hríð en innan tíðar mun Múlaþing auglýsa nýjar lóðir þar til sölu.

Þar er um að ræða allt að átta nýjar íbúðarhúsalóðir sem samþykktar hafa verið samkvæmt nýsamþykktu aðalskipulagi fyrir svæðið en Skipulagsstofnun lagði blessun sína yfir nýja skipulagið í byrjun þessa mánaðar. Þar bæði lóðaframboð aukið og veitt formlegt leyfi fyrir efnistöku úr Fjarðará en þar hefur verið efnistaka um árabil án tilskilinna leyfa.

Með auglýsingunni skal ganga úr skugga um hvort áhugi sé á lóðum almennt í byggðarlaginu að sögn Eyþórs Stefánssonar, formanns heimastjórnar.

„Við heyrum alltaf annars lagið um áhuga fólks á lóðum og þá ekki síst frá brottfluttum Borgfirðingum sem vilja halda í ræturnar hér fyrir austan með einhverjum hætti. Hvort að sá áhugi skilar sér í raunverulegum kaupum kemur þá í ljós núna þegar lóðirnar verða auglýstar en fólk getur þá ekki kvartað yfir að ekkert sé úrvalið eins og við höfum einnig heyrt af og til.“

Miðað við smæð byggðarinnar hefur íbúum fjölgað nokkuð aftur á síðustu fimm árum eftir nokkra fólksfækkun árin þar á undan samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands. Árið 2015 voru 135 einstaklingar skráðir á svæðinu en tveimur árum síðar, 2017, hafði þeim fækkað í 116. Í byrjun þessa árs hafði íbúafjöldinn náð 130 manns á ný.