Nýr búsetukjarni og skammtímavistun fyrir fatlað fólk í Fjarðabyggð tekinn í notkun
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jún 2025 13:56 • Uppfært 06. jún 2025 13:57
Skáli er heitið á nýjum búsetukjarna fyrir fatlað fólk og skammtímavistun fyrir fötluð börn sem opnaður var á Reyðarfirði í gær, innan við ári eftir að fyrsta skóflustungan að honum var tekin. Fyrstu íbúarnir flytja inn eftir helgina og gert er ráð fyrir að húsið verði fullsetið í lok mánaðar.
Í húsinu eru sjö íbúðir. Sex fyrir einstaklinga sem búa þar að jafnaði og ein með tveimur herbergjum, ætluð undir skammtímavistun fyrir börn. Með því er búsetuþjónusta fyrir fatlað fólk í Fjarðabyggð sameinuð á einum stað, en hún hefur áður verið í Neskaupstað og á Reyðarfirði.
Með húsinu batnar aðstaða fyrir bæði íbúa, starfsfólk og aðstandendur. Í herbergjunum er meðal annars lyfta sem gengur eftir brautum í lofti sem auðveldar íbúum að komast á milli rýma. Húsinu var valinn staður miðsvæðis, meðal annars með aðgengi að virkniúrræðum og nauðsynlegri þjónustu, en það stendur við hlið heilsugæslustöðvarinnar á Reyðarfirði.
Ný tækifæri fyrir börn með fötlun
Það var Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem opnaði húsið við athöfn í gær. Hún sagði opnun hússins mikið framfaraskref þar sem sameining þjónustu á einum stað opnaði ýmis tækifæri.
„Ég vona að þetta húsnæði verði uppspretta gleði, vináttu, öryggis og nýrra tækifæra. Að það verði staður þar sem hver einstaklingur fær að blómstra á sínum forsendum,“ sagði hún.
Inga sagði skammtímavistun fyrir börn með fötlun skipta sköpum fyrir börnin sem þar með fái tækifæri til að upplifa nýtt umhverfi og félagslíf við aðstæður sem sniðnar séu að þeirra þörfum en einnig fyrir fjölskyldur sem fái stuðning í krefjandi hlutverki.
Framtíðartæki í þjónustu við fólk með fötlun í Fjarðabyggð
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs og fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar, sagði bygginguna þátt í einu mikilvægasta hlutverki samfélagsins, sem sé að tryggja fólki aðstöðu til að lifa með reisn í öryggi og af virðingu. „Þessi nýi búsetukjarni er ekki aðeins bygging. Hann er framtíðartæki í þjónustu okkar við íbúana,“ sagði hann.
Ragnar lýsti kjarnanum sem ávexti góðs samstarfs, hugsjónar og ástríðu. Hann færði aðalverktökunum, R101, Búðingum og Gunnarsfelli, þakkir fyrir vel unnin störf og þeim sem hefðu komið að undirbúningi vinnunnar eins og og Hjördísi Seljan, fyrrum formanni fjölskyldunefndar og starfsmönnum fjölskyldusviðs, einkum Laufeyju Þórðardóttur, Aðalheiði Björgu Gunnarsdóttur og Önnu Guðlaugu Hjartardóttur en Anna átti afmæli í gær.
Ragnar þakkaði einnig verðandi íbúum sem hann sagði þegar hafa tekið fyrsta skrefin í að gera húsnæðið að heimili sínu. „Ég er fullviss um að hér mun rísa virðingarríkt og hlýlegt samfélag. Hér höfum við byggt ekki bara hús heldur heimili.“
Búsetukjarninn Skáli
Ragnar skýrði einnig frá niðurstöðum nafnasamkeppni, sem haldin var í aðdraganda opnunarinnar. Sigurnafnið er „Skáli“, tillaga frá Vigfúsi Ólafssyni, fyrrum sveitarstjóra á Reyðarfirði. Það vísar til húss sem stóð ekki fjarri nýja húsinu og reist var í kringum 1913.
„Skáli var heimili þar sem fólk bjó saman af elju og heiðarleika, oft við þröngar aðstæður og það ríkti samhugur og manngæska. Skáli er því tákn um það manngildi, reisn og seiglu og endurspeglar þau lífsgæði sem við viljum að búsetukjarninn verði,“ sagði Ragnar.
Hann bætti því við að þrír verðandi íbúar hefðu tengsl við nafnið Skála, tveir hefðu búið í upphaflega Skálanum og sá þriðji að Skála í Berufirði.