Nýr göngu- og hjólastígur að Vök að verða að veruleika
Vinna við nýjan göngu- og hjólastíg frá Fellabæ að Vök Baths við Urriðavatn gengur vel og útlit fyrir að vegfarendur geti strax í sumar notað nýja stíginn.
Vinna við stíginn hófst reyndar fyrir nokkrum árum þegar lagður var grófur malarstígur þessa leiðina samhliða lagnaframkvæmdum vegna þessa vinsæla baðstaðar. Liggur hann beint út frá Einhleypingi í Fellabæ, tekur beygju að Valgerðarstöðum áður en hann liggur svo beint þaðan yfir í Vök og er alls um tveggja kílómetra langan stíg að ræða.
Nokkuð hefur verið um gangandi og hjólandi vegfarendum á þessu slóðum síðustu árin enda ekki aðeins Vök sem heillar margar heldur ekki síður fyrirtaks útivistarsvæði allt kringum Urriðavatnið.
Nú er annar hluti vel á veg kominn en í þriðja og síðasta áfanganum verður stígurinn bæði malbikaður og lýstur upp. Ekki liggur fyrir enn hvenær farið verður í framkvæmdir vegna þess síðasta áfanga.
Mynd: Frá framkvæmdunum sem ganga hratt og vel fyrir sig. Mynd Múlaþing