Rýnihópar myndaðir um breytingar á grunnskólum Fjarðabyggðar
Skipa á nýjan rýnihóp til að móta tillögur um breytingar á starfi grunnskóla í Fjarðabyggð. Engar breytingar verða á þeim fyrir næsta skólaár. Breytingar taka gildi í tónlistarskólum strax í haust. Í leikskólunum verða einnig skipaðir rýnihópar til að vinna að innleiðingu breytinga um næstu áramót.Bæjarstjórn Fjarðabyggðar samþykkti á aukafundi í lok febrúar að sameina skóla Fjarðabyggðar eftir skólastigum og ráða sérstaka fagstjóra fyrir hvert stig til að styðja við skólastjóra á hverjum stað. Um leið átti að segja upp aðstoðarskólastjórum og deildarstjórum sérkennslu en ráða í staðinn verkefnastjóra og bæta við sérfræðingum hjá skólaþjónustu.
Ákvörðunin var strax umdeild, sprengdi meirihlutann og leiddi til fjöldamótmæla. Kennarasambandið óskaði álits mennta- og barnamálaráðuneytisins sem taldi ekkert andstætt lögum í tillögunum sjálfum en ekki hefði haft samráð við foreldraráð leikskóla og skólaráð grunnskóla eins og krafist er í lögum við meiriháttar breytingar.
Breytingarnar voru frystar á meðan málið var til meðferðar hjá ráðuneytinu. Þar sem þær voru ekki gengnar í gegn lagði það fyrir bæjarstjórn að taka málið aftur fyrir að viðhöfðu samráði. Í þessum mánuði hefur verið óskað umsagna foreldra- og skólaráða auk þess sem skólastjórar funduðu með bæjarráði.
Sameining tónskóla strax en frestun í leikskólum
Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á þriðjudag nýjar tillögur fyrir næstu skref. Samkvæmt þeim á strax í haust að sameina tónlistarskóla Fjarðabyggðar í eina stofnun. Eina breytingin er að bókað er að tveir einstaklingar skipti með sér að sinna 75% stöðu aðstoðarskólastjóra, samhliða kennslu. Þá verði unnið með núverandi stjórnendum að því að manna stjórnarstöður nýju stofnunarinnar.
Starf leikskóla verður breytt fram til næstu áramóta. Á þeim tíma verður að unnið að innleiðingu breytinga auk þess að endurskoða leikskólakerfið, svo sem vistunartíma, skráningardaga, gjaldskrár og rekstur mötuneyta. Um hvort tveggja verður myndaður starfshópur með fulltrúum fjölskyldusviðs og bæjarráðs Fjarðabyggðar auk leikskólastjóranna. Foreldraráð koma einnig að innleiðingunum. Auglýsa á starf leikskólafulltrúa í haust. Í upphaflegu tillögunum hét það starf fagstjóri leikskóla.
Lagst aftur yfir breytingar á grunnskólum
Starfsemi grunnskólanna verður óbreytt á næsta ári. Skipaður verður rýnihópur með skólastjórum, fulltrúum fjölskyldusviðs og bæjarráð sem á að skila af sér drögum að tillögum í nóvember 2024 og endanlegum tillögum í febrúar 2025.
Hópnum er ætlað að vinna að innleiðingu þeirra breytingar sem samþykktar voru í febrúar og horfa meðal annars til stjórnunarhlutfalls, hagræðingar í rekstri og aukinnar samvinnu og samlegðar grunnskólanna í Fjarðabyggðar til að efla þá. Hópurinn á einnig að vinna að seinni hluta markmiða starfshóps um fræðslumál um innra umhverfi skólanna.
Starf grunnskólafulltrúa verður auglýst í byrjun næsta árs. Fyrir komandi skólaár verður unnið að útfærslu hlutverks tengilliðar um farsæld barna í samráði við skólastjóra. Boðið verður upp á aukna þjálfun á fjárhags- og áætlanakerfi sveitarfélagsins þannig að skólastjórar geti unnið drög að starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
Enn þungt hljóð í kennurum
Í minnisblaði með tillögunum, sem undirritað er af Jónu Árnýju Þórðardóttir bæjarstjóra og Laufeyju Þórðardóttir, sviðsstjóra fjölskyldusviðs, segir að vegna kærunnar til ráðuneytisins í vor sé ljóst að tímalínan, sem lagt var upp með í lok febrúar um að breytingar tækju gildi fyrir næsta skólaár, standist ekki.
Mikilvægt sé að eyða þeirri óvissu sem töfin hafi skapað þannig að stjórnendur geti skipulagt skólastarfið í haust. Eins sé mikilvægt að ferli framundan taki mið af þeim atriðum sem fram hafa komið í samráðsferlinu síðustu tvær vikur.
Þær telja að með tillögunni sé komið til móts við sjónarmið sem skólastjórnendur settu fram á fundum í síðustu viku um hvernig næstu skref verið stigin sem vonandi byggi undir farsælt samstarf. Miðað við þau samtöl sem Austurfrétt hefur átt í dag og í gær er ljóst að hljóð er enn þungt í bæði starfsfólki skóla og foreldrum í Fjarðabyggð sem lýsa efasemdum að komið sé nægjanlega á móts við óskir þeirra með nýju tillögunum. Þannig hefur Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagt að hljóðið væri enn þungt í grunnskólakennurum, sem hittust á sameiginlegum fundi í gær, og skýr krafa um víðtækt samráð.