Nytjamarkaðurinn Steinninn leitar ásjár Fjarðabyggðar
Forsvarsmenn hins vinsæla nytjamarkaðar Steinninn í Neskaupstað hafa biðlað um aðstoð af hálfu sveitarfélagsins Fjarðabyggðar þar sem núverandi húsnæði versluninnar er fyrir nokkru orðið sprungið.
Engum blöðum er um að fletta að sem mest endurnýting og endurvinnsla eldri muna hefur komist í tísku hérlendis sem víðar. Margt það sem áður fór umhugsunarlítið út í tunnu eða ruslagám fer nú fjöldi fólks með á nytjamarkaði í þeirri von að hlutirnir geti gagnast öðrum. Það er sannarlega reynsla Guðrúnar Sigríðar Guðmundsdóttur sem staðið hefur vaktina í Steininum frá árinu 2017. Allur ágóði af sölu muna í Steininum hefur alla tíð farið til styrktar góðra málefna í nærliggjandi byggðum.
„Það fer ekkert á milli mála að það hefur stóraukist á skömmum tíma hvað við erum að fá til okkar og ekki síður hve margir koma hingað, skoða og versla gjarnan líka. Ef ég ætti að giska þá er aukningin hér á þessum tíma sem ég hef sinnt þessu allavega 100 prósent. Það er mikil vakning hér sem víðar að nýta hlutina betur.“
Meiri áhuga fólks fylgja þó vandamál og hefur þess vegna nytjamarkaðurinn glímt við plássleysi um hríð eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem Guðrún tók fyrr í dag. Allar hillur drekkhlaðnar og gólfplássið mjög takmarkað.
„Það er orðið þröngt um okkur hér og sérstaklega leiðinlegt að við getum ekki tekið á móti stærri munum eins og húsgögnum eða slíku. Til þess einfaldlega ekki pláss. Við höfum haft augastað á húsnæðinu þar sem Atóm var áður enda töluvert stærra en við erum nú með. Við viljum kanna hvort Fjarðabyggð gæti liðsinnt okkur eitthvað í þessu því hvert sem markaðurinn fer er viðbúið að talsverð útgjöld fylgi því að flytja í stærra húsnæði.“