Skip to main content

Nýtt hitamet í ágústmánuði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. ágú 2025 22:56Uppfært 16. ágú 2025 22:57

Mesti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði mældist í dag á Egilsstaðaflugvelli, 29,8 stig. Þetta er annað mánaðarhitametið sem sett er þar á þessu sumri.


Samkvæmt yfirliti frá Veðurstofunni kom óvenju hlýr loftmassi upp að landinu í gær. Á vestanverðu landinu varð hvasst, blautt og jafnvel eldingar en eystra mikill hiti.

Hitinn byrjaði í gærkvöldi. Þá hækkaði hann einstaklega skarpt. Samkvæmt mælingum frá Egilsstaðaflugvelli var hitinn þar klukkan 20:00 16,1 gráða en klukkustund síðar mældist 21,5 gráður.

Tæplega 20 stiga hiti var síðan í alla nótt og í morgun hlýnaði enn frekar á ný. Hitametið, sem enn er formlega óstaðfest, var slegið um klukkan 14:00.

Samkvæmt yfirliti Trausta Jónssonar, veðurfræðings, var eldra metið 29,4 gráður, sett á Hallormsstað árið 2021. Hann segir það met oft véfengt en enginn vafi sé á mælingu upp á 29,2 gráður frá Egilsstaðaflugvelli í ágúst árið 2004.

Auk þess að vera mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi í ágústmánuði og á þessari öld, þá er þetta hlýjasti dagur sem mælst hefur síðan árið 1946. Þann 11. júlí það ár mældust 30 gráður á Hallormsstað, samkvæmt yfirliti Bliku. Síðan hefur hitinn ekki farið yfir 30 gráður hérlendis.

Hitametið er 30,5 gráður, sett á Teigarhorni í Berufirði þann 22. júní árið 1939.

Einnig er rétt að halda því til haga að þetta er annað mánaðarhitametið sem sett er á Egilsstöðum á þessu sumri. Þann 15. maí síðastliðinn mældust 26,6°C þar, sem var í fyrsta sinn sem yfir 26 stiga hiti var mældur á Íslandi í maí.

Mynd úr safni