Nýtt skálavarðahús rís í Vöðlavík
„Þetta er náttúrulega formlega orðið friðland þannig að þörfin á skálaverði þarna öllum stundum er mikil enda bendir allt til að aðsókn þetta sumarið verði með því allra mesta,“ segir Kamma Dögg Gísladóttir hjá Ferðafélagi Fjarðamanna.
Fjarðabyggð hefur veitt félaginu hálfa milljón króna í styrk vegna byggingar skálavarðahúss í hinni fallegu Vöðlavík en byggingu skálans sjálfs er því sem næst lokið með hjálp nema í Verkmenntaskóla Austurlands sem smíðað hafa húsið sem hluta af náminu.
Kamma segir þetta breyta öllu því illa hafi gengið að fá fólk til skálavörslu á staðnum hingað til vegna bágrar aðstöðu. Allt annað sé uppi á teningnum nú þegar fyrir liggur að verðir fái góðan skála undir sig. Tekist hafi að ráða í störfin á augabragði og margir verið um hituna.
„Við munum svo flytja húsið á staðinn um miðjan júní eða svo, koma því fyrir og svo gerum við ráð fyrir að starfsemin hefjist svona um mánaðarmótin júní, júlí. Það var töluverð aðsókn á síðasta sumri á staðinn en nú sýnist mér ljóst að mun fleiri ætli sér að skoða Vöðluvík en fyrri ár.“
Mynd: Vöðlavík er sannarlega ein af náttúruperlunum í Fjarðabyggð og þangað sækja margir þó aðeins sé jeppaslóði á staðinn. Mynd Fjarðabyggð.