Óánægja eftir að N1 á Egilsstöðum hætti með rétt dagsins
Töluvert hefur borið á óánægjuröddum á Egilsstöðum vegna þeirrar ákvörðunar forsvarsmanna söluskála N1 á staðnum að hætta að bjóða upp á heimilismat í hádeginu. Ástæða þess þó einföld; salan hefur hrapað.
Það löngum verið fjölsótt í matsal N1 um hádegisbil virka daga undanfarin ár því þar fengist réttur dagsins sem undantekningarlaust er heimilislegur matur á viðráðanlegu verði. Það hentað þeim fjölmörgu sem starfa utandyra eða hjá smærri fyrirtækjum þar sem ekkert er mötuneytið en ekki síður mörgum ferðamanninum sem þannig hefur kynnst algengum íslenskum mat án mikillar fyrirhafnar.
Meginástæða þess að N1 hefur hætt sölu á rétt dagsins er þrátt fyrir það sú að sala hefur mjög dregist saman að sögn Kristínar Þorleifsdóttur, veitingastjóra fyrirtækisins.
„Þessi ákvörðun er ekki tekin nema að vel ígrunduðu máli og við erum búin að skoða þetta nokkuð lengi. Það er fyrst og fremst gríðarlega dýrt að reka svona eldhús og bjóða heimilismat reglulega. Sá kostnaður er líkast til mun meiri en flestir átta sig á. Hráefniskostnaður hefur hækkað jafnt og þétt, umstangið allt er töluvert mikið og það hefur lengi verið áskorun að fá faglært fólk til starfa í eldhúsinu. Allra stærsta ástæðan er þó einfaldlega sú að það hefur orðið gríðarleg fækkun viðskiptavina. Bara á milli janúar og febrúar nú og í fyrra fækkaði gestum í heimilismatinn um helming. Sú fækkun gesta plús aukinn hráefniskostnaður myndi þýða að til að hafa eitthvað upp úr þessu þyrftum við að hækka verðið. En sú verðhækkun yrði drjúg og það viljum við helst ekki gera.“
Eftirleiðis verður því eingöngu matur af matseðli staðarins í boði. Kristín segir ekki með öllu útilokað að þessu verði breytt á nýjan leik síðar meir en þetta sé sú staða sem nú sé uppi.