Skip to main content

Óánægja og veikindi á Stöðvarfirði vegna síðbúinnar viðvörunar vegna gerlamengunar í neysluvatni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. ágú 2025 15:56Uppfært 05. ágú 2025 13:32

Hópur íbúa Stöðvarfjarðar er afar óánægður með hve seint sveitarfélagið Fjarðabyggð varaði fólk við gerlamengun í drykkjarvatni þorpsins fyrr í vikunni. Allnokkrir fengið slæma magapest undanfarið og Austurfrétt er kunnugt um fólk sem ætlar beinlínis að leita réttar síns gagnvart Fjarðabyggð vegna þessa.

Ástæða óánægju íbúanna skýrist ef því að sýnataka úr vatnsbóli þorpsins fór fram þann þriðjudaginn 22. júlí síðastliðinn og við greiningu kom fljótt í ljós ekólí- og kólígerlamengun í vatnsbólinu. Formleg staðfesting þess efnis barst þó ekki frá rannsóknarstofu til Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) fyrr en mánudaginn var eða sex dögum síðar. Það tók svo sólarhring til viðbótar áður en Fjarðabyggð tilkynnti íbúum með fréttatilkynningu um vandamálið þriðjudaginn 29. júlí.

Saurmengun

Engin leið er fyrir slíkar bakteríur að komast í vatnsból nema gegnum saur úr fólki eða skepnum með heitt blóð en viðbrögðin eru að undantekningarlaust bullsjóða allt neysluvatn meðal bólið og lagnir tæmast alfarið af óværunni. Ekólí- eða kóligerlasýking geta haft alvarlegar afleiðingar og þá ekki síst fyrir ungabörn og aldraða.

Þó mengunin hafi verið staðfest á mánudaginn 28. júlí hefur enn ekki tekist að komast fyrir vandann en næsta sýnataka er áætluð á þriðjudaginn kemur. Að sögn Láru Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra HAUST, tekur að lágmarki þrjá sólarhringa fyrir rannsóknarstofuna í Neskaupstað að kynna um frumniðurstöður sýnarannsókna en það geti vel tekið þrjá til fjóra sólarhringa að fá það hundrað prósent staðfest svo óhætt sé að vara fólk við vafningalaust.

„Við hér fáum staðfestingu á menguninni á mánudaginn var og í kjölfarið létum við sveitarfélagið strax vita af vandamálinu. En það tekur okkur dag að taka sýnin, dag til að senda þau á réttan stað og dag eða tvo að fá óyggjandi niðurstöður til baka.“

Magapest margra bæjarbúa

Eva Jörgensen er ein þeirra sem hafa fundið fyrir magapest síðustu dagana en hún fjarri því ein um það því allnokkur fjöldi hefur fundið fyrir magapest í bænum samkvæmt upplýsingum Austurfréttar. Fregnast hefur að fólk hafi ennfremur sótt á heilsugæslu vegna magaverkja en það hefur ekki fengist staðfest af hálfu Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Eva er sérstaklega reið yfir þeim langa tíma sem það tók að aðvara heimafólk um gerlamengunina. Ekki hvað síst þegar haft sé í huga að meirihluti íbúa Stöðvarfjarðar sé fólk sem komið sé á aldur og því mun viðkvæmara gagnvart bakteríum og sýkingum en aðrir.

„Við fáum fyrstu upplýsingar um að eitthvað sé að átta dögum eftir að sýni var fyrst tekið sem sýndi eitthvað vafasamt sem getur hreint ekki verið eðlilegt. Ég veit um fjölda fólks sem fann og finnur enn fyrir ónotum í maga sem er mjög líklegt að megi rekja til þessarar mengunar sem við fengum seint fréttir af. Sjálf var ég nýbúin að taka mjög dýran skammt af þarmalyfjum, sem kosta mig tugþúsundir króna, þegar þessar fréttir berast og þar með eru öll þau lyfin orðin tiltölulega gagnslaus. Fólk hér spyr sig hvort ekki hefði mátt aðvara íbúa með fréttatilkynningu mun fyrr að það væri hugsanlega mengun í vatnsbólinu. Afleiðingar þessa eru of alvarlegar til að bíða bara lon og don að mínu mati enda hef ég heyrt um marga sem hafa fengið í magann síðustu dagana. Sjálf er ég staðráðin í að leita réttar míns vegna þessa og mun klárlega fara fram á greiðslur fyrir þau lyf sem ég tók rétt áður en tilkynningin birtist en lyfin kosta mig tugi þúsunda króna. Svo er hér barnshafandi kona og fullt af eldra fólki sem ræður mun verra við magasýkingar en ég og yngra fólk. Þetta er mjög alvarlegt að mínu mati.“

Mengun aftur og aftur

Eva er fjarri því ein um óánægju vegna þessa. Það eru margir aðrir sem Austurfrétt hefur rætt við og fengið staðfest en viðvaranir vegna mengunar í vatnsbóli Stöðfirðinga hafa nánast verið árlegar síðustu árin án þess að mikið hafi verið að gert til að koma í veg fyrir ítrekað vandamálið af hálfu sveitarfélagsins.

Einn viðmælandi Austurfréttar, sem ekki vildi láta nafn síns getið, sagðist hafa um margra ára skeið gera bara fastlega ráð fyrir mengun í vatnsbólinu að sumarlagi og því sé allt neysluvatn á heimili viðkomandi soðið hvort sem aðvörun væri í gildi eður ei.

Hugsanlega fór viðvörun HAUST á ranga aðila

Að sögn Haraldar Líndal, upplýsingafulltrúa Fjarðabyggðar, fór viðvörunin frá HAUST vegna gerlamengunar í neysluvatni Stöðfirðinga á ranga aðila fyrr í vikunni sem orsakaði að tafir urðu á birtingu aðvörunar.

„Það eru náttúrulega sumarfrí og annað. Reglan er að senda allt á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sem er netfang sem er vaktað öllum stundum og kemur líka til mín. En það var ekki gert í þessu tilfelli og vegna sumarfría komust skilaboðin frá HAUST ekki lengra. Um leið og þetta kom inn til okkar þá fór út tilkynning en við fáum ekki sendar þessar frumniðurstöður en kannski gætu gefið okkur tækifæri til að vara íbúa við að mengun gæti verið raunin. Það alltaf betra að leyfa íbúum að njóta vafans en ekki svo ef frumniðurstöðurnar gefa eitthvað skringilegt til kynna myndum við líkast til senda út tilkynningu. Sjálfum finnst mér eðlilegt að allir íbúar njóti vafans og ef það eru sannarlega vísbendingar um mengun þá náttúrulega er eðlilegt að ráðleggja fólki að sjóða vatnið. Auðvitað óþægilegt að þurfa að sjóða vatnið en vont líka að fá í magann. Ef það birtist viðvörun hefur fólki allavega valið.“