Skip to main content

Óásættanlegt að Suðurfjarðavegur sé látinn grotna niður

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. maí 2025 09:50Uppfært 20. maí 2025 14:38

Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar úr Norðausturkjördæmi, segir ástand þjóðvegarins sunnan Reyðarfjarðar, sem almennt kallast Suðurfjarðavegur, vera óásættanlegt. Hún vonast til að innviðaráðherra kynni sér aðstæður og grípi til aðgerða.


Eydís fór með lýsingu atvinnubílstjóra, sem keyrir veginn daglega, í umræðum á Alþingi nýverið. Á honum séu sex einbreiðar brýr sem allar væru orðnar slitnar og hættulegar. Við eina þeirra hefur vegurinn sigið svo að brúin myndar blindhæð.

Vegurinn er víða mjór, kantar eru skemmdir og vegaxlir vantar. Hætta skapast þegar bílar mætast þar, oft í kröppum beygjum eða á blindhæðum. Slitlagið er nánast ónýtt, þunnt og bætt.

Heppni að ekki hafi orðið stórslys


Hvörf eru í veginum en þau myndast oft þegar lækir eru leiddir í rör undir veginn og hann sígur sitt hvoru megin við. Þau myndast einnig þar sem undirlagið hefur sigið, sem gerist meðal annars vegna umhleypinga í veðri og þungrar umferðar.

Tvisvar í vatnavöxtum í vetur skolaðist vegurinn í burtu við svona rör. Í öðru tilfellinu varð slys á fólki þegar bíll féll ofan í tveggja metra djúpan skurð sem þá myndaðist.

Eydís sagði ástandið sérstaklega slæmt milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar en ræddi einnig snjóflóðahættu og grjóthrun í Kambanesskriðum milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar og sagði heppni að þar hefðu ekki orðið stórslys þótt stundum hefði munað litlu.

„Íbúar, þar með talin börn á leið í skóla og íþróttir, ferðast eftir þessum vegi allt árið um kring. Fólk á svæðinu sækir vinnu, menntun, verslun og þjónustu eftir þessum sama vegi,“ sagði hún.

Vonast til að innviðaráðherra komi austur


Eydís skýrði frá því að hún hefði boðið Eyjólfi Ármannssyni, innviðaráðherra, austur til að skoða aðstæður. Í ráðuneytinu er unnið að drögum að samgönguáætlun sem gert er ráð fyrir að lögð verði fram á Alþingi í haust.

„Það er óásættanlegt að þessi lífæð sé látin grotna niður. Þetta er innviðaskuld sem taka verður á í fjórðungi sem færir þjóðarbúinu mikil verðmæti,“ sagði Eydís að lokum um Suðurfjarðaveginn.

Fréttin hefur verið uppfærð til að skýra betur hvað ami að veginum eftir einstökum svæðum á honum.