Skip to main content

Óbreytt staða við Öskju

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. ágú 2023 13:40Uppfært 16. ágú 2023 15:03

Fulltrúar almannavarna á Austurlandi voru meðal þeirra sem sátu upplýsingafundi í morgun með fulltrúum Veðurstofunnar og fleira jarðvísindafólk um stöðuna við Öskju. Áfram er fylgst með eldstöðinni eins og gert hefur verið í tvö ár en ekkert nýtt sem bendir til að kvika sé á uppleið.


Í frétt Veðurstofunnar segir að stöðugt landsris hafi verið við Öskju síðan í júlí 2021. Þess vegna hafi fólk á svæðinu verið beðið að fylgjast með yfirborðsbreytingum þar.

Í vikunni bárust vísbendingar um gufustrók á svæðinu. Talið er að það hafi verið rykbólstrar, mögulega vegna grjóthruns á svæðinu en mjög þurrt hefur verið þar í sumar. Vísindafólk er á svæðinu í dag við mælingar. Von er á niðurstöðum þeirra athugana á morgun.

Óvissustig er í gildi á svæðinu. Þess vegna tóku fulltrúar almannavarna á Austurlandi þátt í fundinum í morgun, líkt og þeir hafa gert síðastliðin tvö ár.

Síðast gaus í Öskju í lok október árið 1961. Það var hraungos sem stóð í tæpa tvo mánuði. Aukin jarðhitavirkni og jarðskjálftar voru á svæðinu í um þrjár vikur áður en eldgosið kom upp.

Mynd: Benedikt Ófeigsson/Veðurstofa Íslands