Oddný Eir ráðin í Skriðuklaustur
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. jún 2025 14:14 • Uppfært 13. jún 2025 14:14
Oddný Eir Ævarsdóttir, rithöfundur og dagskrárgerðarkona, hefur verið ráðin í starf forstöðumanns Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri. Sex umsóknir bárust um starfið.
Oddný Eir Ævarsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1972 og er menntuð í heimspeki og bókmenntum. Hún hefur starfað sem rithöfundur um langt skeið og gefið út á annan tug höfundarverka.
Hún hefur fjölbreytta reynslu á mörgum sviðum menningar, mennta og miðlunar og hefur unnið við safnastarf, kennslu, ritstjórn, sýningastjórn og dagskrárgerð, svo nokkuð sé nefnt.
Oddný Eir var í stjórn Rithöfundasambands Íslands um tíma og sat þá um skeið í stjórn Gunnarsstofnunar fyrir hönd sambandsins. Hún tekur við starfinu 1. janúar 2026 af Skúla Birni Gunnarssyni sem hefur verið forstöðumaður Gunnarsstofnunar frá hausti 1999.