Oddvitinn hjólaði yfir Öxi: Viljum gera baráttuna sýnilega

andres_skula_oxi_hjola_0006_web.jpgAndrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, hjólaði ásamt tveimur öðrum frá Djúpavogi, yfir Öxi og til Egilsstaða á laugardag. Með ferðinni vildi hann vekja athygli á baráttu fyrir heilsársvegi yfir Öxi.

 

Með Andrési í för voru Bryndís Reynisdóttir, varaoddviti og ferðamálafulltrúi og Þorbjörg Sandholt, formaður brottfluttra Djúpavogsbúa í Reykjavík. Þau lögðu af stað um klukkan 9:30 um morguninn og komu í Egilsstaði rúmum fimm tímum síðar.

„Við fengum vind í bakið inn Berufjörðin, tókum viðgerðarhlé á Melshorni hjá Ólafi Áka bónda, lentum í þoku á Háöxinni og smá mótvind í restina,“ sagði Andrés í samtali við Agl.is um ferðina. Á Egilsstöðum tók Gunnar Jónsson, bóndi og formaður bæjarráðs á móti hópnum, gaf honum öxi og mjólkurvörur.

Fyrirhugað var að bjóða út nýjan veg yfir Öxi seinasta haust en framkvæmdum var frestað vegna almenns niðurskurðar í samgöngumálum. Rætt verður um nýja samgönguáætlun á Alþingi í haust og segir Andrés tímabært að minna aftur á Öxi sem setja eigi í forgang.

„Við höfum staðið í þessari baráttu í mörg herrans ár. Við vildum brjóta hana upp og gera hana sýnilega með að hjóla leiðina.“

Aðspurður hvort ekki hefði verði þægilegra að hjóla frá Egilsstöðum til að minnka brattann upp úr Berufirðinum sagði Andrés: „Við veljum ekkert alltaf auðveldustu leiðina. Við höfum sýnt að við erum tilbúin að berjast fyrir hlutunum.“

 
 






 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.