Öll makrílveiðiskipin komin inn í íslensku lögsöguna

Íslensku makrílveiðiskipin hafa hópað sig saman á bletti milli Íslands og Færeyja til makrílveiða. Beitir kom með fyrsta farminn til Neskaupstaðar í gærmorgunn en fleiri skip eru ýmist byrjuð að landa eða á leiðinni inn.

Beitir NK kom til Norðfjarðar um klukkan 10:30 í gærmorgunn með um 470 tonn af makríl. Fiskurinn veiddist fyrir austan landið og lítur ágætlega út, að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar, útgerðarstjóra. Beitir var einnig með smáræðis af síld sem fór til bræðslu. Löndun úr skipinu er lokið og heldur það aftur til veiða í dag.

Löndun er hafin úr Vilhelm Þorsteinssyni sem er með 870 tonn sem veiddust í Smugunni. Þar var skipið ásamt Berki NK, sem nú hefur fært sig inn í íslensku lögsöguna. Segja má að þar séu öll uppsjávarveiðiskipin í hnapp, meðal annars Barði NK, Margrét EA, skip Síldarvinnslunnar og Samherja, sem hafa verið í samstarfi.

Þar eru einnig Venus NS og Víkingur AK frá Brimi og Jón Kjartansson og Aðalsteinn Jónsson frá Eskju. Þau hófu einnig makrílleit í Smugunni en hafa nú fært sig. Svanur, skip Brims, er á leið til Vonafjarðar með farm úr Smugunni.

Grétar segir engan rífandi gang í veiðinni, lítið sjáist en annað slagið hitti skipin á fisk. Við slíkar aðstæður muni miklu um veiðisamstarfið, en skip Síldarvinnslunnar og Samherja skiptast á að fylla hvert annað þannig eitt sé stöðugt að fæða vinnsluna í Neskaupstað.

Að einhverju leyti kemur á óvart að makríll veiðist innan íslensku lögsögunnar þar sem sjórinn austan við land hefur verið frekar kaldur í vor. Grétar minnir á móti á að í fyrra hafi stór hluti makrílkvótans veiðst austan og norðaustan við landið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.