Öll yngstu börnin komast á leikskóla á Héraði eftir áramót
Það leit út fyrir um tíma að tvísýnt yrði hvort allra yngstu börnin á Héraði fengju inni á leikskóla eftir áramótin en fræðslustjóri Múlaþings segir fræðsluyfirvöld hafa fundið lausn á málinu.
Innan Múlaþings voru viðraðar áhyggjur af því í haust að útlit væri fyrir skort á leikskólaplássum fyrir yngstu börnin á leikskólum á Héraði eftir áramót þegar yngstu börnin komast á leikskólaaldur. Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir, fræðslustjóri, segir að unnið hafi verið hart að því að finna lausnir áður en að þessu komi og nú sé útlitið þannig að öll börnin komist að.
„Staðan er nú sú að öll börnin eiga að komast inn strax eftir áramótin og það verður enginn biðlisti. Það eina er að þau komast kannski ekki alveg að á því augnabliki sem þau verða eins árs en þau komast öll inn. Vinna við þetta er reyndar enn í gangi og við erum að meta nákvæmlega hver þörfin er. Kannski náum við öllum börnunum inn á deildirnar í leikskólunum en takist það ekki þá erum við með svona færanlega kennslustofu sem við setjum upp á leikskólalóðinni. Þannig verða börnin ekki á aðskildri deild langt burtu heldur á eða við leikskólalóðina þar sem hin börnin eru. Það er þó ekki útséð um að við þurfum á þessari kennslustofu að halda enn og það væri draumalausnin að koma öllum inn á deildirnar.“
Aðspurð hvort þessi næsti árgangur barna í leikskólana sé stærri en gengur og gerist segir Sigurbjörg það ekki vera. Öllu frekar hafa síðustu árgangar verið stærri en venjulega en svo mun stór árgangur mun koma inn á næsta ári og þá mun umrædd færanleg kennslustofa sannarlega koma í góðar þarfir.