Skip to main content

Öllu til tjaldað fyrir Unglingalandsmót UMFÍ á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. júl 2025 10:32Uppfært 02. júl 2025 11:38

Eftir nákvæmlega 30 daga hefst Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands á Egilsstöðum og mikill fjöldi lagt lið við drjúgan undirbúninginn síðustu misserin. Allt gengur vel að sögn formanns framkvæmdanefndar mótsins

Það fer ekki hátt en auk starfsfólks UMFÍ, íþróttafélaga og sveitarfélagsins Múlaþings hefur töluverður fjöldi sjálfboðaliða undanfarið unnið hörðum höndum að undirbúningi þessa risamóts á íslenskan mælivarða en mótið fer fram um komandi Verslunarmannahelgi.

Þar munu kringum eitt þúsund unglingar etja kappi í einum 20 íþróttagreinum yfir fjögurra daga tímabil og er búist við að heildargestafjöldi í bænum yfir þennan tíma verði um eða jafnvel yfir tíu þúsund manns. Það viðbót við gesti sem hyggja á ferð austur á land yfir þennan tíma burtséð frá mótinu.

Eðli máls samkvæmt er í æði mörg horn að líta við undirbúning slíks stórmóts en allt hefur gengið vel hingað til að sögn Jónínu Brynjólfsdóttur, formanns framkvæmdanefndar. Flestar keppnisgreinar fara fram á Vilhjálmsvelli en auk þess verður keppt á Fellavelli, Ekkjufellsvelli, gervigrasvellinum við Egilsstaðaskóla, báðum íþróttahúsunum á Egilsstöðum og í Fellabæ, Selskógi auk þess sem keppt verður í hestaíþróttum að Fossgerði og í mótorkrossi við Mýnes.

Betrumbætur víða

Búið er að lagfæra Vilhjálmsvöll og næsta umhverfi verulega til að taka mót slíkum fjölda keppenda og gesta að sögn Jónínu og því verki að mestu lokið. Sömuleiðis eru að hefjast framkvæmdir við Fellavöll þar sem búið er að tryggja uppsetningu tveggja stúka fyrir mótið svo fátt eitt sé nefnt.

Að sama skapi þarf að hafa ofan af fyrir keppendunum að móti loknu hvern dag og til þess skal nýta Egilsstaðaskóla, íþróttamiðstöðina, Tjarnargarðinn, Sláturhúsið auk þess sem búið er að koma upp sviði og betrumbæta Braggann við hlið Sláturhússins. Nóg verður af afþreyingu með tónleikum, kökuveislu, sýningum ýmsum, fimleikafjöri svo ekki sé minnst á sundlaugarpartí.

Bjartsýni og tiltrú

„Mestur tíminn hingað til sennilega farið í að lagfæra Vilhjálmsvöllinn sem er megin vettvangur mótsins,“ segir Jónína. „Áður vorum við búin að semja við byggingarfélag Hattar um að skipta um undirlag á Fellavelli sem gert var í fyrra og þeim tókst líka að reisa efri hæðina á vallarhúsinu svo þar verður líf meðan á mótinu stendur. Þá höfum við líka tryggt okkur tvær stúkur sem setja skal þar upp svo eitthvað sé upp talið. En ég held mér sé óhætt að segja að allur undirbúningurinn hafi gengið vel hingað til og ef eitthvað þá erum við aðeins á undan áætlun í öllu saman. Það er svona allt komið á sinn stað, margir styrktaraðilar leggja hönd á plóg og almennt er mikil bjartsýni og tiltrú á að allt verði vel klárt þegar mótið hefst. Auðvitað eru alltaf áskoranir en þær eru yfirstíganlegar.“

Jónína bendir líka á öll ungmennum á Austurlandi sé boðið á mótið þeim að kostnaðarlausu en almennt er tæplega tíu þúsund króna gjald á hvern keppanda.

„Það er aldeilis búið að betrumbæta Braggann sem mun nýtist fyrir alls kyns skemmtanir á kvöldin meðan á mótinu stendur og sama gildir um Sláturhúsið sjálft sem verður vettvangur fyrir eitt og annað yfir þennan tíma. Það verður nóg í boði fyrir utan mikla dagskrá á mótssvæðunum sjálfum.“

Aðstæður á Vilhjálmsvelli sjaldan verið betri nú þegar búið er að betrumbæta fjölmargt bæði á vellinum og kringum hann. Þar verður stanslaust líf og fjör yfir komandi Verslunarmannahelgi. Mynd Unnar Erlingsson