Öllum rýmingum aflétt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2023 19:54 • Uppfært 01. apr 2023 19:56
Veðurstofa Íslands ákvað á áttunda tímanum að aflétta rýmingum á Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði. Þar með hefur öllum rýmingum á Austurlandi verið aflétt.
Rýmingunum hefur í dag verið aflétt einni af annarri. Byrjað var í gær þegar dró úr snjóflóðahættu en í nótt og framan af degi var fylgst með hættu af krapaflóðum. Gul viðvörun vegna asahláku féll úr gildi á hádegi.
Ekki eru áhyggjur af skriðuföllum. Samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum í dag er fylgst með stöðunni í hlíðunum fyrir ofan Seyðisfjörð. Þar er grunnvatnsstaða lág og engar hreyfingar mælst.
Þegar mest lét aðfaranótt föstudags fengu tæplega 800 Austfirðingar ekki að vera heima hjá sér vegna ofanflóðahættu. Rýmingarnar hófust á mánudagsmorgunn eftir að snjóflóð féllu í Neskaupstað.
Þar fór hreinsunarstarf af stað í dag og er tjón úr hamförunum að koma í ljós. Ljóst er að víða hefur náttúran sýnt mikla krafta, spýjur komið niður lækjafarvegi eða ár rutt sig með miklum látum auk þess sem ofar í fjöllum má víða sjá ummerki eftir misstór snjóflóð. Samkvæmt skrá Veðurstofunnar hafa fallið vot flóð í Reyðarfirði, Eskifirði, Norðfirði og Seyðisfirði síðastliðinn sólarhring.
Mynd: Landsbjörg