Skip to main content

Örlítið mjakaðist í kjaradeilunni í Fjarðaáli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. sep 2025 15:13Uppfært 10. sep 2025 15:13

Formaður AFLs starfsgreinafélags segir lítils háttar framþróun hafa orðið á samningafundi félagsins og Rafiðnaðarsambandsins við Alcoa Fjarðaál í dag. Undirbúningur verkfalls heldur þó áfram.


Fundurinn hófst hjá ríkissáttasemjara um klukkan tíu í morgun og lauk með frestun klukkan 14:00. Ekki hefur verið boðaður fundur en Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs, segir að sáttasemjari hafi tekið að sér að boða næsta fund, væntanlega í næstu viku.

Hún segir að viðræðurnar hafi heldur mjakast í rétta átt í dag. „Alcoa kom með ákveðnar hugmyndir að borðinu í morgun sem við meltum og svöruðum. Það mjakaðist örlítið en boltinn er nú hjá þeim. Tímasetning næsta fundar veltur væntanlega á því hversu langan umhugsunarfrest Alcoa tekur sér.“

Viðræður hafa staðið síðan í desember. Nýr samningur rann út í lok febrúar og í apríl var kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara. Eftir árangurslausan fund í júlí hófu félögin undirbúning verkfalls. Hann heldur áfram.

Næsta skref er að trúnaðarráð félaganna funda og semja tillögu um verkfallsboðun. Starfsmenn greiða síðan atkvæði um hana. Trúnaðarráð AFLs fundar á morgun en RSÍ síðar í dag. Hjördís segir að atkvæðagreiðsla um verkfall fari væntanlega af stað fljótlega eftir það.

Þar með er þó ekki skollið á verkfall. Samkvæmt núgildandi samningum byrjar verkfallið ekki fyrr en sex mánuðum eftir samþykkt þess þegar slökkt er á fyrsta kerinu í álverinu. Síðan er slökkt á þeim einu af öðru samhliða því sem starfsmenn leggja smám saman niður störf. Ferlið tekur alls þrjá mánuði þar til slökkt hefur verið á öllum kerjum.